Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 16:50:34 (9562)

2004-07-21 16:50:34# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Jú, heldur betur, herra forseti, ég held því fram galvaskur að við séum að komast aftur á byrjunarreit. Hvað er verið að leggja hér fyrir? Hvað felst í brtt. sem hv. þm. Bjarni Benediktsson mælir hér fyrir? Að henda fjölmiðlafrumvarpinu, öllu eins og það leggur sig. Það stendur að vísu eitt atriði eftir með útvarpsréttarnefnd sem er ágætt og til bóta. Öllu öðru er hent. Eru menn þá ekki aftur á byrjunarreit og engin lög í gildi um þetta efni? Ég hefði haldið það.

Ég tel að menn séu, og vonandi, aftur á hinum pólitíska byrjunarreit. Það má segja að fyrir liggi skýrslur og gögn sem er ágætt. Kannski flýtir það eitthvað fyrir starfinu. Þær umræður sem fram hafa farið, jú, það getur vel verið að að sumu leyti flýti þær fyrir. Annað gæti nú heldur tafið og spillt fyrir, t.d. orðalag af því tagi sem er hér í nál. þar sem áfram gætir viðleitni í raun og veru til að tala menn í sundur. Sjálfstæðismenn hafa hamast í því að reyna að einangra Samf. alveg sérstaklega í þessu máli. Er það til bóta upp á framhaldið? Af hverju reyna menn ekki heldur að tala sig saman? Það er þetta sem ég var að gera athugasemdir við.