Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:08:49 (9565)

2004-07-21 17:08:49# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta framsögu. Mig langaði að inna hana sérstaklega eftir tveimur atriðum.

Hún talaði annars vegar um stjórnarskrárvafann. Þann vafa sem á því léki að hægt sé að afturkalla eða fella úr gildi gömlu fjölmiðlalögin og setja ný. Er hún sannfærð, eftir að það ferli var sett í gang með málskoti forseta Íslands 2. júní að gera virkan atkvæðarétt þjóðarinnar til að kjósa um fjölmiðlalögin, um að það sé ekki hreint og klárt stjórnarskrárbrot að grípa inn í ferlið með þessum hætti og hafa þann rétt beinlínis af þjóðinni? Er það ekki skýlaust stjórnarskrárbrot eða hefur þingmaðurinn sannfæringu fyrir því að svo sé ekki og því styðji hún frv., þ.e. þá afturköllun sem hér liggur fyrir?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm., af því að hún ræddi um málskotsréttinn líkt og fram kom í nál. meiri hluta allshn.: Telur hún að aftengja beri málskotsrétt forseta Íslands í þeirri endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins sem fram undan er?