Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:14:54 (9569)

2004-07-21 17:14:54# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það leiki stjórnskipulegur vafi á því hvort hægt sé að kippa máli úr þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég tel ekki að menn eigi að lesa stjórnarskrána eins og strangtrúaðir gyðingar Mósebækurnar.

Ég tel mikla dýpt í þeim orðum Eiríks Tómassonar að handhöfum ríkisvaldsins beri á ólgutímum, eins og núna ríkja út af átökunum í kringum frv., að velja þann valkost, ef valkostir eru uppi um skýringar á stjórnarskránni, sem leiði til sátta. Á þeim grundvelli hefur Eiríkur Tómasson sagt að þessi leið sé fær. Það eru rök sem ég get ekki í hjarta mínu vísað algjörlega frá.

Með hliðsjón af öðrum rökum sem t.d. hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti, um að það leiki klárlega stjórnskipulegur vafi, eins og komið hefur fram í máli m.a. varaformanns allshn., á því hvort hægt sé að beita þeirri aðferð sem notast er við í frv. sem hér á að breyta --- ályktunin sem stjórnarliðið dró af því var að hætta við aðferðina --- þá spyr ég hv. þm.: Hvers vegna draga menn ekki sömu ályktun varðandi hinn stjórnskipulega vafa sem leikur á því hvort hægt sé að kippa málinu úr þjóðaratkvæðagreiðslu? Er ekki staðreyndin sú að eina ástæðan fyrir því að menn völdu þá leið var að ágreiningur var um hvort og að hve miklu leyti ætti að samþykkja takmarkandi reglur? Var það ekki sá ágreiningur milli stjórnarflokkanna sem leiddi til þessa?

Svo þætti mér vænt um að hv. þm., ef hún hefur til þess tíma, svaraði einnig: Hvaða stjórnlagakreppa er það sem meiri hluti allshn. er talar um að ríki, í nál. sínu?