Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:17:05 (9570)

2004-07-21 17:17:05# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísaði hér til orða Eiríks Tómassonar á fundi í allshn. og sem líka koma fram í umsögn hans, þeirra um að stjórnvöld á hverjum tíma, ríkisstjórnin, handhafar valds á hverjum tíma, skuli axla þá ábyrgð að velja þá leið út úr ógöngum, erfiðum málum, sem leiðir til friðar í samfélaginu.

Ég er ekki búin að grandlesa álit minni hluta allshn. en ég varð þess þó vör að þessi orð voru tekin upp þar. Ég minni á það að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði líka um skynsemi í þessu tilviki.

Ég talaði í ræðu minni áðan um ágreining um stjórnskipulegar leiðir. Ég talaði aldrei um vafa. Í nál. finnst mér aðeins óhönduglega orðað það sem menn vildu kannski sagt hafa. Ég tel af fenginni heimsókn þessara gesta og umsagna sem við fengum, fræðimanna, lögfræðinga og prófessora, að það hefði verið komin nokkur sátt um að það væri heimilt að bara fella lögin úr gildi en að það hefði verið vafi um það frekar að hægt væri að setja ný lög í kjölfarið. Þannig hef ég frekar skilið það. En ég minni á að það voru líka lögfræðingar sem töldu að hvort tveggja stæðist stjórnarskipunarlög.