Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:23:01 (9573)

2004-07-21 17:23:01# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. formaður allshn. hefur gert hér mjög góða grein fyrir niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar um hið seinna fjölmiðlamál sem í raun snerist kannski í umræðunni um stjórnskipunarmál og valdmörk handhafa ríkisvaldsins. Við teljum okkur vera að leita hér leiða til sátta og teljum að sú leið sem við völdum megi leiða til vonandi góðrar sáttar í þjóðfélaginu í góðri sátt við stjórnarandstöðuna.

Vegna þeirra orða sem fallið hafa hér um eitt orð í nál. meiri hlutans verður víst að viðurkennast að við tókum ekki eftir því, þingmenn, að okkur hafði skjöplast við gerð nál. Þar sem stendur í nál. ,,með hliðsjón af þeim stjórnskipulega vafa`` höfðum við ætlað að segja ,,stjórnskipulega ágreiningi sem uppi er``. Þetta gátum við auðvitað ekki leiðrétt eftir að búið var að dreifa nál. hér og verðum því víst að biðjast forláts á þessu ef þetta verður frekar að umræðuefni í þingsal. (Gripið fram í: Er það ekki málefnalegur ágreiningur?) Það þarf ekki að vera, hv. þingmaður, en það skiptir kannski ekki meginmáli. Þetta var það sem við ætluðum hins vegar að segja.

Þegar litið er til þess hvaða skoðanir komu fram hjá þeim sem komu fyrir allshn. er nánast hægt að segja að skoðanir hafi verið jafnmargar og sá fjöldi manna sem fyrir nefndina kom. Bæri svo við að einhverjir tveir kæmust að sömu niðurstöðu var sú niðurstaða jafnvel studd mismunandi rökum. Umræðan í nefndinni leiddi fyrst og fremst í ljós hversu ófullburða og ófullkomin ákvæði stjórnarskrárinnar eru í mörgu tilliti. Það er fullkomin nauðsyn á að ráðist verði í endurskoðun stjórnarskrárinnar eins og forsrh. lagði til 1. febrúar sl. í tilefni af heimastjórnarafmælinu. Það er einnig sú eina rökrétta niðurstaða sem hægt er að draga af starfi allshn. nú í sumar hvað varðar stjórnskipunarréttinn. Einnig hljótum við að vænta þess að samstaða náist um að undirbúa lagafrumvarp sem taki á því efni sem var upphaf alls þessa, þ.e. lagaumhverfi fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Ég ætla að hlaupa aðeins á útlínum þess máls sem er í rauninni grunnurinn að því að við sitjum á Alþingi í dag. Málið byrjaði á þingi í apríl þegar lagt var fram stjórnarfrumvarp sem byggði á skýrslu nefndar sem fjallaði um það hvort ástæða væri til að setja löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Meginmarkmið frv. var að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamlaði gegn fjölbreytni í fjölmiðlun hér á landi. Ég hlýt að fagna því að hér hafa fallið orð í dag af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem sérstaklega er tekið undir þetta og reiknað með að þetta umfjöllunarefni fari inn í væntanlegt nefndarstarf.

Það er raun farið afar vægt í sakirnar með því að frv. sneri eingöngu að úthlutun á útvarpsleyfum og það er þá eingöngu að gerðar voru tillögur um þann hluta sem ríkið hefur á einhvern hátt með að gera. Jafnframt var það augljóst að huga þyrfti að mun fleiri þáttum fjölmiðlunar og boðið að unnið yrði áfram að fleiri þáttum málsins samkvæmt ábendingum þeim sem komu fram í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar en hún var, eins og fram hefur komið, skipuð af hæstv. menntmrh. í desember á síðasta ári.

Ástæða þess að ákveðið var að bregðast við með þessum hætti var að augljóst er að fyrirtæki þurfa ákveðinn aðlögunartíma þegar viðskiptaumhverfi þeirra er breytt. Skemmst er frá því að segja að umræða vorsins gekk út á málsmeðferð af hálfu stjórnarandstöðunnar en ekki efnisinnihald frv. Hefði þó mátt búast við öðru miðað við fyrri yfirlýsingar stjórnarandstöðunnar um nauðsyn þess að bregðast við samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlun. Stjórnarandstaðan stóðst einfaldlega ekki mátið að gera atlögu að ríkisstjórninni með ákaflega dyggum stuðningi fjölmiðlasamsteypu Norðurljósa. Það var sem sagt of freistandi fyrir stjórnarandstöðuna að grípa þetta tækifæri til að láta það ógert og efni málsins var látið gjalda þess.

Frumvarpið tók auðvitað breytingum í meðförum allshn. Allar þær breytingar sem gerðar voru voru til þess að nálgast sáttaleið við stjórnarandstöðuna og hagsmunaaðila án þess að markmiði frv. yrði raskað. Málið var klárað með lýðræðislegum hætti hér á Alþingi. Þá tók við þáttur Ólafs Ragnars Grímssonar sem synjaði málinu undirritunar. Í stað þess að skýra frá afstöðu sinni í ríkisráðinu boðaði hann til blaðamannafundar á Bessastöðum til að tilkynna það. Ekki vitum við reyndar enn hvað fékk Ólaf Ragnar til þess, a.m.k. að mínu mati, að bregðast embættisskyldu sinni og synja undirritunar. Það kemur þó vonandi einhvern tíma í ljós.

Ég vil í þessu sambandi minna á það að fyrir þær umræður sem sköpuðust með ýmsum pöntuðum álitum, m.a. ýmissa virtra lögfræðinga og annarra spámanna á sviði stjórnskipunarréttar, voru tvær meginlínur í túlkun á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Það var skoðun Ólafs Jóhannessonar, sem kennd hefur verið í Háskóla Íslands mjög lengi og hefur svo sem verið margtíunduð hér, og hins vegar er túlkun Þórs Vilhjálmssonar um að forseti hafi ekki vald til synjunar undirritunar nema með tilstuðlan ráðherra. Þetta rökstyður hann m.a. með tilvísun í 13. gr. stjórnarskrárinnar.

[17:30]

Ég vil eingöngu benda á þá grein sem Þór skrifar um þetta efni. Hann færir mjög sterk rök að því í grein sinni um synjunarvald forsetans í afmælisriti Gauks Jörundssonar frá 1994. Fleiri hafa stutt þetta álit hans, m.a. hefur það komið fram hjá Davíð Þór Björgvinssyni prófessor.

Ég vil halda því til haga í umræðunni að sérfræðingar á sviði stjórnskipunar eru alls ekki sammála um það hvort forseti hafi þetta synjunarvald samkvæmt 26. gr. Ríkisstjórnin tók hins vegar þá ákvörðun að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram, m.a. með rökstuðningi af kenningum Ólafs Jóhannessonar sem svo lengi hafa verið kenndar og þjóðin þekkir mjög vel.

Það var augljóst talið og nánast allir sammála um það að setja þyrfti lög um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og kom þá fljótt í ljós að djúpstæður ágreiningur var meðal fræðimanna um hvert gæti verið innihald slíkra laga. Það sem skipti þó meira máli var að pólitískur ágreiningur var um það efni eins og seinna kom m.a. í ljós með frv. stjórnarandstöðunnar um að engin skilyrði skyldu gilda um kosningaþátttöku eða aukinn meiri hluta. Það verður að teljast nokkuð einkennileg mynd af lýðræðinu ef mikill minni hluti kosningarbærra manna getur ákveðið örlög lagafrumvarpa sem meiri hluti Alþingis hefur samþykkt í ljósi þess að kosningaþátttaka í alþingiskosningum er ávallt mjög mikil á Íslandi. Reyndar hefur kosningaþátttaka í flestum forsetakosningum einnig verið mjög mikil þar til á þessu vori þegar söguleg skil urðu í þátttökunni auk þess sem mjög hátt hlutfall manna skilaði auðu í forsetakosningunum. Við hljótum að draga þær ályktanir að augljóst hljóti að vera að þarna speglist óánægja landsmanna með athafnir Ólafs Ragnars varðandi synjun á lögum frá Alþingi.

Hæstv. forseti. Meginrit í íslenskum stjórnskipunarrétti er Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson og vitnuðu menn óspart í hana í umræðu og rökstuðningi sínum í allshn. Var það þá eins og gengur að menn gripu til þeirra raka og jafnvel einstakra setninga úr bók Ólafs eins og best hentaði málstað þeirra hverju sinni og einstaka gripu jafnvel til eins konar lögskýringa á texta Ólafs í bókinni. Það verður að segjast eins og er að almennt hefur þessi uppákoma, að Ólafur Ragnar skuli hafa gripið til þess ráðs að synja um undirritun laga á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar, haft mjög slæm áhrif og má jafna til stjórnskipunarkreppu, eins og fram kemur í nál. meiri hluta allshn. Það verður að teljast ótrúlega óábyrgt af manni sem hefur verið falinn jafnmikill trúnaður af þjóðinni að leiða hina þjóðfélagslegu umræðu inn á þær brautir sem við höfum orðið vitni að að undanförnu. Ég get ekki orðað það öðruvísi en svo. Meiri hluti hv. allshn. telur reyndar að með tillögum okkar höfum við leyst úr þeirri kreppu að þessu sinni en guð hjálpi okkur ef þessi háttsemi Ólafs Ragnars endurtekur sig.

Ég vil vitna í Stjórnskipun Íslands til þess að benda á hvaða skoðanir Ólafur Jóhannesson og menn honum samtíma höfðu á umræddri 26. gr. Á bls. 297 í Stjórnskipun Íslands, 2. útgáfu, segir svo, með leyfi forseta:

,,Sú skipan, sem ákveðin er með 26. gr. stjórnarskrárinnar er óvenjuleg eða jafnvel einstæð. Eru skoðanir skiptar um það hversu heppileg hún sé. Er óneitanlega einkennilegt að frumvarp skuli þegar fá lagagildi, þrátt fyrir staðfestingarsynjun forseta. Er og á það bent að þjóðaratkvæði sé löggjafaraðili sem ekki eigi að leita til nema mikið liggi við eða um sé að tefla meginatriði í lagasetningu. Eins og 26. gr. stjórnarskrárinnar er úr garði gerð þarf varla að reikna með lagasynjunum, en ef til kæmi yrði sjálfsagt óhjákvæmilegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Væri eðlilegt að sett væru almenn lög um það efni.``

Um lagasetninguna og skilyrði þátttöku segir Ólafur á bls. 300 í 2. útgáfu um Stjórnskipun Íslands, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lög þau sem forseti synjar staðfestingar. Hér er sá munur á að frumvarpið hefur öðlast lagagildi við staðfestingarsynjun forseta.``

Áfram segir, hæstv. forseti, með leyfi:

,,Um þessa atkvæðagreiðslu yrði einnig að setja lög. Væri eðlilegast að um það efni væru sett almenn lög. Yrði sennilega talið heimilt að setja í þeim lögum ákveðin skilyrði um þátttöku í atkvæðagreiðslu og jafnvel aukinn meiri hluta.``

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur aldrei farið fram á lýðveldistímanum. Hefur það verið skoðun flestra og ekki síst þingmanna en einnig fræðimanna að sennilega kæmi aldrei til synjunar forseta þannig að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi samkvæmt ákvæðum 26. gr. Á það m.a. við um Ólaf Ragnar að hann hefur sett fram þá skoðun sína, sem einu sinni var, (MÁ: Ólafur Ragnar Grímsson.) að ákvæðið væri dauður bókstafur. (Gripið fram í: Ólafur Ragnar Grímsson.) Ólafur Ragnar Grímsson, forseti nú á Bessastöðum.

Í öllu falli, hæstv. forseti, hefur enginn snúið sér að undirbúningi lagafrumvarps um framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu eða haft uppi tillögur um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að lagafrumvarp um það efni yrði samið. Þó hefur það verið almennur skilningur lengi að ef til beitingar ákvæðisins kæmi, ef svo ólíklega vildi til einhvern tíma, þyrftu að vera til staðar lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fylgdi í kjölfar synjunarinnar.

Vegna þeirrar umræðu sem fyrr hefur spunnist í dag er hér ekki um að ræða neins konar gagnrýni á þá menn sem sömdu stjórnarskrána. Hverju sem menn vilja halda fram um að þetta ákvæði sé kristaltært hefur bara komið í ljós að þegar átti að fara að beita ákvæðinu eru annmarkar þeir sem fram hafa komið svo augljósir að þessu ákvæði verður ekki beitt með neinu móti. Það er algjörlega ljóst af þeim umræðum sem áttu sér stað um 26. gr. í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar að þingmenn höfðu mjög mismunandi skoðanir á inntaki og framtíðargildi hennar. Það sést m.a. á atkvæðaskýringum að menn vildu ekki tefja umræðuna frekar um inntak greinarinnar vegna þess að stjórnarskráin mundi standa í skamman tíma og ráðstafanir hefðu verið gerðar til að endurskoða hana. Ég hef fyrr í dag vitnað í þær atkvæðaskýringar sem gefnar voru á þeim tíma.

Hæstv. forseti. Ég vil ekki lengja þetta meira af tilliti við þingmenn og starfsfólk á þessum bjarta sumardegi. Ég vil þó að endingu segja að þótt það séu mér auðvitað nokkur vonbrigði að ekki skuli hafa náðst það markmið að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum að þessu sinni er það auðvitað einlæg von mín að sátt takist við stjórnarandstöðuna um að hún vinni af heilindum að löggjöf á þessu sviði umgjarðar um fjölmiðla á Íslandi eins og aðra þætti sem að þeim snúa. Ég tel það reyndar hafa komið fram hér í umræðum í dag að þeir sem hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar hafa sagt það beint eða óbeint.

Ég tel það vera skyldu okkar að ná sátt um umhverfi fjölmiðla. Vald þeirra er mikið og því skiptir það miklu að um þá sé skapaður rammi sem undirstriki skyldu þeirra í lýðræðislegu þjóðfélagi. Málstaðurinn er góður og gott mál má aldrei gjalda flytjandans, merk skilaboð mega ekki gjalda boðberans. Okkur ber að líta á það sem skyldu okkar að vernda og treysta lýðræðið í landinu, það er frumskylda okkar hér á Alþingi.

Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan telji að það þjóni stundarhagsmunum sínum að efast um valdheimildir Alþingis trúi ég því að þegar af hv. þingmönnum bráir eftir þessa orrahríð sem við eigum nú í komist menn að því í sameiningu að framtíðarhagsmunum þjóðarinnar og þess lýðræðisþjóðfélags sem við öll viljum viðhalda og treysta í landinu sé best borgið með að treysta þingræðið enn betur í sessi. Það er aftur á móti í engri mótsögn við það þó að við viljum með einhverjum hætti opna fyrir þann möguleika að um einstök málefni geti farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla, annaðhvort með ákvörðun Alþingis eða að ósk tiltekins fjölda kosningarbærra manna. Þetta rekst engan veginn á.

Það hefur verið sagt að þjóðin sé fegin að ljúka málinu. Ég held að nokkuð sé til í því. Aldrei fyrr held ég að við höfum orðið vitni að eins miklum darraðardansi í fjölmiðlum og í þessu máli án þess þó kannski að meginefni málsins hafi verið rætt til hlítar. Ég held að í rauninni sé sama til hvaða stórmáls við lítum sem hefur verið til umfjöllunar á undanförnum árum, ekkert þeirra hefur sætt annarri eins atlögu og þetta mál.

Hæstv. forseti. Í ljósi þess geta menn svo velt fyrir sér frekari rökstuðningi fyrir setningu laga um eignarhald á fjölmiðlum.