Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:53:19 (9583)

2004-07-21 17:53:19# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á því að þessi stjórnskipunarkreppa sem núna er verið að tala um var þó ekki stærri en svo að þegar gefið var út forsetabréf um að Alþingi skyldi koma saman til framhaldsfunda, undirritað af bæði forsetanum, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, og hæstv. forsrh., Davíð Oddssyni, var kreppan ekki stærri en svo að þeir undirrituðu það bréf.

Í því bréfi stendur, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra hefir tjáð mér að nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til að fjalla um tilhögun atkvæðagreiðslu þeirrar sem ákveðið hefur verið að fram skuli fara, um frambúðargildi laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993, sem samþykkt voru á stjórnskipulegan hátt frá Alþingi hinn 24. maí sl.

Fyrir því hefi ég ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda mánudaginn 5. júlí 2004 kl. 15.00.``

Þarna var verið að kalla þingið saman til að ákveða tilhögun þeirrar atkvæðagreiðslu sem var um að ræða. Undir þetta rituðu báðir þessir háttvirtu menn.