Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 17:59:00 (9588)

2004-07-21 17:59:00# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er tilgangur okkar í stjórnmálum að leita sátta í þjóðfélaginu, jafnvel við stjórnarandstöðuna, og þykir okkur það heldur betra, sem oft gerist hér á þingi, að menn ná góðri sátt um góð þingmál. Satt að segja gátum við ekki búist við öðru þegar við lögðum upp í þessa vegferð en að stjórnarandstaðan tæki vel undir þetta mál. Það mátti ráða af því að allir stjórnmálaflokkar sem nú sitja á þingi höfðu gefið yfirlýsingar um að setja þyrfti lög um eignarhald á fjölmiðlum.

Því skyldum við ekki hafa gefið okkur það að stjórnarandstaðan tæki því vel þegar við lögðum upp í þessa vegferð? Því svara ég til að auðvitað reiknuðum við með því þegar við lögðum upp í vegferðina að stjórnarandstaðan tæki þessu vel. Okkur gat ekki órað fyrir því, það var ekki hægt að láta sig dreyma um að forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, tæki þá ákvörðun að synja lögum staðfestingar sem hafa verið sett á Alþingi og hefur aldrei verið gert frá því að lýðveldið var stofnað. Því hefðum við átt að gefa okkur það fyrir fram að forsetinn tæki þessa ákvörðun? Það var ekki hægt að ímynda sér, hv. þingmaður.