Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:37:29 (9592)

2004-07-21 18:37:29# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Frú forseti. Það er rödd úr reynslubrunni þegar hv. þm. Halldór Blöndal talar um stjórnarskrárbrot því ítrekað hefur hann sýnt atkvæði sínu á þingi þá virðingu að brjóta með því gegn stjórnarskránni með því m.a. í þeim metnaðarfulla tilgangi að halda niðri kjörum öryrkja í landinu. Hann sakar okkur um að lítilsvirða þingvilja. Það er alrangt en við virðum þjóðarvilja. Og forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur engu frv. synjað. Hann hefur vísað því til þjóðarinnar. En hv. þm. þorir ekki að leggja það frv. í dóm þjóðarinnar vegna þess að hér ætluðu nokkrir menn að misnota sér aðstöðu sína á Alþingi til að fara gegn eindregnum þjóðarvilja. Sá leiðangur hefur sem betur fer hlotið þau endalok sem hér eru orðin. En ég hlýt að spyrja forseta Alþingis, hv. þm. Halldór Blöndal, hvort hann ætli ekki að læra af þeirri vegferð, að til þess að halda virðingu Alþingis þurfi að standa að lagasetningu með þeim hætti að ætla megi að þingvilji og þjóðarvilji fari saman, a.m.k. nægilega til þess að flutningsmenn (Forseti hringir.) frumvarpa þori óhræddir að leggja þau í dóm kjósenda.