Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:43:00 (9597)

2004-07-21 18:43:00# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. Halldór Blöndal gera mér fullhátt undir höfði í ræðu sinni en tek það hól sem hann sendi mér. En mig langaði aðeins í þessari umræðu vegna þess að hv. þm. byrjaði ræðu sína á því að fjalla um þingbundna stjórn og mátti skilja það svo að í þingræðinu felist að þingið ráði öllu. En það er ekki hugsunin í stjórnskipuninni. Þar er ríkisvaldinu skipt í þrennt, þ.e. framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Alþingi er síðan falið að fara með löggjafarvaldið. Í þingræðinu felst að ríkisstjórn þarf a.m.k. að njóta stuðnings eða hlutleysis meiri hluta þingsins en ekki að þingið ráði öllu. Það er því einhver misskilningur á floti í máli hv. þm. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri þannig að þeim misskilningi yrði eytt.

Hvað það varðar að ég hafi verið að gantast með orðið ,,stjórnskipunarkreppa`` þá er langur vegur frá því. Ég var hins vegar (Forseti hringir.) að spyrja hv. þm. um rökstuðning fyrir því hvers vegna menn notuðu orðið stjórnskipunarkreppa. Það hefur ekki komið fram.