Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 18:44:54 (9598)

2004-07-21 18:44:54# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Halldóri Blöndal verður nokkuð tíðrætt um virðingu þingsins og hann hefur talað um árás forsetans á þingið. Ég hef skilið mál hans þannig að hann telji að forsetinn hafi verið að taka vald frá þinginu, í reynd verið að taka löggjafarvald frá þinginu. Mig rak í rogastans að heyra hv. þm., sem líka er hæstv. forseti Alþingis, kvarta undan því í ræðu sinni áðan að forseti Íslands hefði ekki komið tveimur vikum áður en þingið lauk umfjöllun sinni um málið og látið uppi að hann hefði efasemdir um það.

Hvað felst í þessu? Er hv. þm. Halldór Blöndal þeirrar skoðunar að það væri æskilegt að í hvert einasta skipti sem sú staða kæmi hugsanlega upp að forseti lýðveldisins velti fyrir sér hvort hann ætti að skjóta máli til þjóðarinnar þá léti hann forseta þingsins, eftir atvikum oddvita framkvæmdarvaldsins, vita af því og síðan hæfust samningaviðræður þeirra í millum? (Forseti hringir.) Væri það ekki framsal valds sem með öllu væri óviðunandi?