Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 19:24:13 (9604)

2004-07-21 19:24:13# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við sjáum fyrir endann á mjög erfiðu og miklu máli sem hefur tekið yfir alla fjölmiðla landsins undanfarna þrjá mánuði. Það er kannski ekki undarlegt þar sem það fjallar einmitt um fjölmiðla. Ég hef saknað þess í umræðunni að menn ræddu málefnalega og rökfræðilega um kosti og galla hugmynda. Mér finnst umræðan hafa einkennst meira af valdabrölti eða því sem menn kalla sandkassaleik, þar sem menn eru uppteknari af því að sigra en að ná góðri niðurstöðu. Nú er það svo að frá upphaflegu frv. í vetur, sem seinna varð að lögum og á að breyta nú aftur, hafa orðið gífurlega miklar breytingar. Þær eru allar í þá átt að taka tillit til þeirra athugasemda sem m.a. stjórnarandstaðan hafði við upphaflegt frv. Maður kynni því að ætla að þar með væri málið orðið gott og allir mundu samþykkja það. En svo er ekki.

Eftir að forseti lýðveldisins synjaði því að skrifa undir lögin og vísaði þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur umræðan eðlilega snúist meira um stjórnskipun ríkisins. Ég vildi engu að síður skipta málflutningi mínum í þrennt. Ég ætla að ræða efnislega um fjölmiðlamálið. Síðan um hvort málið sé þinglegt og svo samskipti forseta Íslands og Alþingis.

Frú forseti. Ef við ræðum efnislega um fjölmiðla þá hafa orðið gífurlegar og hraðar breytingar á fjölmiðlamarkaði, bara á einu eða tveimur árum. Eignarhald hefur safnast á fáar hendur og nú eru eiginlega þrír eigendur að fjölmiðlum í landinu, í stórum dráttum. Flestir eða nánast allir eru sammála um að eitthvað þurfi að gera. Það er bara spurningin um tíma og aðferð. Sumir óttast vald fjölmiðla og gera ráð fyrir að ekki sé hægt að koma böndum á þá ef þeir verða mikið öflugri. Það má t.d. benda á frétt af skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist fyrir tíu dögum eða svo, þar sem fram kom að Framsfl. væri með 7,5% fylgi. Þetta olli náttúrlega miklum titringi í grasrót þess flokks. Það var reyndar ekki mikið bent á að 40% þeirra sem spurðir voru neituðu að svara, sem er óvenjuhátt hlutfall. Væntanlega voru margir þeirra framsóknarmenn. Mér virtist ekki varpað fram spurningum um ágæti þessarar könnunar. Mér finnst að þeir sem birta slíkar kannanir og stjórna með því umræðunni í landinu, hafa jafnvel mikil áhrif á stjórnmál eins og hefur sýnt sig, þurfi að leggja spilin á borðið og sanna það að þessi skoðanakönnun hafi yfirleitt farið fram, hvernig hún fór fram og að það séu hlutlausir aðilar sem hafa unnið að viðkomandi skoðanakönnun. Það vill svo til að Fréttablaðið er einn harðasti andstæðingur fjölmiðlafrv. og hefur alltaf verið. Það fer ekkert dult með það þannig að þetta sýnir einmitt þau áhrif sem fjölmiðlarnir geta haft, m.a. með því að birta eigin skoðanakannanir sem vitnað er í í öðrum fjölmiðlum. Ég nefni t.d. bæði RÚV og aðra fjölmiðla sem vitna í þessa skoðanakönnun alveg blint, eins og þetta sé heilagur sannleikur.

Flokkar á þingi skiptast eiginlega í tvö horn. Annars vegar vill Samf. koma á ritstjórnarlegu frelsi og gagnsæju eignarhaldi, sem er óútfært. Aðrir flokkar vilja takmarka eignarhaldið jafnframt. Ritstjórnarlegt frelsi er svo sem ágætt á yfirborðinu. Hvað felst í því, t.d. að ritstjóri blaðs megi segja það sem hann vill án þess að minnka í launum eða missa af launahækkunum eða verða sagt upp? Hvað gerist ef maður stofnar blað til að halda fram ákveðnum skoðunum, t.d. í kvótamálum? Hann er kannski fylgjandi kvótakerfinu en svo ræður hann ritstjóra en í ljós kemur að ritstjórinn er á móti kvótakerfinu. Ritstjórinn notar þetta blað eigandans til að berjast gegn stefnumálum og markmiðum eigandans. Hvað má eigandinn þá gera? Hann má væntanlega ekki segja honum upp. Hann getur ekki lækkað hann í launum. Spurningin er sú hvort hann megi leggja reksturinn niður. Er það þá ritstjórnarlegt frelsi ef eigandinn má leggja reksturinn niður? Mætti hann t.d. hætta að leggja fram fé til að stækka þetta fyrirtæki sem vinnur gegn honum?

[19:30]

Einnig er annarri spurningu ósvarað. Hversu langt niður nær þetta ritstjórnarlega frelsi? Á það bara við ritstjórann eða á það líka við einstaka fréttamenn? Getur það gerst að ritstjóri sem er sammála eigandanum í því að styðja kvótakerfið ráði einhvern fréttamann og fréttamaðurinn fer allt í einu að birta greinar og fréttir sem eru andstæðar bæði ritstjóranum og eigandanum. Hvað gera menn þá? Ef menn halda að einhver sé tilbúinn til að fjárfesta í fjölmiðlum með þessu fororði þá er það alger misskilningur. Ég held að slík breyting og slík atlaga að fjölmiðlum, að koma með ritstjórnarlegt frelsi, geri það að verkum að eignin minnkar í verði, hún lækkar mjög hratt í verði. Það er því rangt sem hér var haldið fram að ekki þyrfti langa aðlögun í þessu máli. Auðvitað þarf jafnlanga aðlögun í þessu máli sem rýrir eignir þeirra sem eiga fjölmiðlana eins og í því að takmarka eignarhaldið, ekki síður.

Sumir hafa sagt að styrkja eigi RÚV, setja peninga þar á móti, þ.e. ef eitthvert markaðsráðandi fyrirtæki sem á ómælda peninga dælir peningum inn í fjölmiðla, og veldur mikilli grósku, sem sumir hafa bent á að sé jákvætt og auðvitað er það jákvætt fyrir blaðamenn og aðra þegar slík staða kemur upp, til að ná áhrifum og styrkja stöðu sína pólitískt, þá eigi ríkið að dæla inn peningum á móti inn í RÚV. Þetta er skoðun sumra. Mér finnst þetta ekki sniðug skoðun, að búa til einhvern slag á milli ríkisins og einhvers markaðsráðandi fyrirtækis. Ég veit ekki hvort mundi hafa betur.

Frú forseti. Sumir hafa sagt að þetta mál sé ekki þinglegt af því að verið sé að breyta lögum og vitna þá til 43. gr. þingskapa en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lagafrumvarp, er hefur verið fellt, má eigi bera upp aftur á sama þingi.``

Það verður að hafa verið fellt. Það lagafrv. sem við erum nú að ræða um, þ.e. lögin, voru samþykkt og það er ekkert á móti því að breyta þeim, enda er það gert iðulega. Ég hef séð það gert 3--4 sinnum á hverju þingi. Ég minni á að í apríl sl. flutti efh.- og viðskn. frv. til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, sem nýbúið var að samþykkja, og það var samþykkt. Allir greiddu atkvæði með því, stjórnarandstaðan líka. Verið var að breyta lögum sem nýbúið var að samþykkja. Frv. var í rauninni flutt aftur örlítið breytt sem hafði verið samþykkt sem lög.

Frú forseti. Við komumst ekki hjá því að ræða samskipti forseta Íslands og Alþingis. Það einkennir umræðuna að fræðimenn komu með í grófum dráttum þrjár mismunandi niðurstöður. Í fyrsta lagi að ferlið sem hefst með því að forsetinn synjar undirskrift sé óstöðvandi, það skuli fara fram hvað sem á dynur. En þá gerist dálítið merkilegt, eins og kom fram í andsvari fyrr í dag, að þessi lög ein allra laga í lagasafninu eru óbreytanleg, það er enginn í heiminum sem getur breytt þeim fram að þjóðaratkvæðagreiðslu, enginn. Það gæti aftur valdið miklum vandræðum því að það gæti verið bráðabirgðaástand í þjóðfélaginu. Það gæti verið hernaðarástand, það gæti verið uppi einhver slík staða og ég nefndi dæmi um lög um dauðarefsingu sem hefðu verið gölluð. Ef þessi túlkun er rétt þá tel ég mjög brýnt að breyta 26. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel hins vegar að hún sé ekki rétt. Reyndar voru fyrir því góð rök eins og öllum þessum lagaálitum.

Svo var það að fella mætti lögin úr gildi en ekki samþykkja ný lög strax. Sumir sögðu það og aðrir sögðu að fella mætti lögin úr gildi og samþykkja önnur lög strax.

Síðan var þriðji hópurinn sem sagði að það væri allt í lagi að samþykkja lögin og það var skoðun ríkisstjórnarinnar. Þarna koma þrjár mismunandi túlkanir á stjórnarskránni sem menn hafa tekið mið af og farið varlegustu leiðina en samt ekki þá allra varlegustu sem þýðir að það mætti engu breyta og fara yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvað sem það kostaði.

Næst ætla ég að ræða, frú forseti, rétt aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég er hlynntur því að þjóðin geti einstaka sinnum komið að ákvörðun mála, einstaka sinnum, en það má ekki vera oft. Það er nefnilega þannig að í stjórnun ríkis eru menn stöðugt að taka óvinsælar ákvarðanir. Ég nefni t.d. að í Kaliforníu þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru mjög almennar og hæstv. fjmrh. nefndi líka, getur landið orðið nánast stjórnlaust, ekki er hægt að stjórna því ef þjóðaratkvæðagreiðslur eru mjög auðveldar, þ.e. létt að koma þeim á. Við skulum hugsa okkur að forseti lýðveldisins hefði verið studdur af skattgreiðendafélagi landsins --- sem á eftir að stofna. Og hann væri fylgjandi því að hafa skatta sem minnsta. Svo samþykkir Alþingi eitthvert skattafrv., alltaf skal slíkur forseti neita að skrifa undir slík lög. Alltaf á að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Og hver vill borga hærri skatta? Öll slík lög yrðu felld. Ég er hræddur um að hrikta færi í velferðarkerfinu ef slík niðurstaða yrði.

Menn þurfa að hugsa dálítið til framtíðar þegar verið er að ræða um þessi mál. Ekki má bara hugsa um þetta frv. og stöðuna núna, þennan forseta, þessa persónu sem nú er forseti Íslands eða núverandi ríkisstjórn. Þetta getur allt breyst segjum eftir 10--20 ár. Það getur vel verið að eftir 30 ár komist Samf. einhvern tíma í ríkisstjórn og þá getur verið annar forseti (Gripið fram í: Í haust.) --- eða í haust já, sumir láta sig dreyma.

Ég sagði líka í andsvari áðan að þetta væri flókið mál og að stjórnarandstaðan teldi sig þurfa meiri tíma en tvo mánuði til að skoða það en samt ætlast hún til þess að hinn almenni kjósandi svari já eða nei, vitrænt. Ég held að svona flókið mál, sem stjórnarandstaðan segist þurfa þetta mikinn tíma til og er þó á fullu kaupi í vinnu við að taka ákvörðun og í fullri vinnu við að hlusta á sérfræðinga, geti maður ekki borið undir þjóðaratkvæði, ekki með vitrænum hætti.

Síðan er það spurningin hvort eigi að setja skilyrði. Það er tvennt í því. Annars vegar ef þjóðin er að taka frumákvörðun. Segjum að lagt hefði verið undir þjóðina hvort virkja ætti Kárahnjúka áður en Alþingi tók nokkra afstöðu til málsins, þá hefði ég talið að meiri hluti ætti að ráða og ákveðin lágmarksþátttaka þyrfti að vera, helmingur þjóðarinnar eða eitthvað slíkt. Hins vegar ef þjóðin á að fara að hafna niðurstöðu þar sem kjörnir fulltrúar, þ.e. fulltrúar hennar tóku á Alþingi þá finnst mér að meira en helmingur þeirra sem kusu á Alþingi síðast eigi að hafna frv., eigi að ganga í blóra við þá þingmenn sem tóku þá ákvörðun, þ.e. núna eru það 44%. Ef kosningaþátttaka linaðist nú og færi niður í 50%, þá þyrfti ekki nema 25%% þjóðarinnar að hafna viðkomandi frv. enda væri Alþingi þá veikari fulltrúi þjóðarinnar en nú. Þetta finnst mér að ætti að vera reglan þegar um það er að ræða að fella lög sem Alþingi hefur sett.

Mér finnst ekki skynsamlegt að hafa engin skilyrði eins og sumir hafa nefnt. Þá gæti það nefnilega gerst í máli sem enginn hefði áhuga á nema lítill hagsmunahópur, ég nefni t.d. arðsemi af vatnsveitum sveitarfélaga, eða lög um tannsmiði --- sem sumir töluðu um sem stjórnarskrárbrot á sínum tíma --- sem enginn hefði áhuga á, þá væri efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, forsetinn sem væri tannsmiður eða tannlæknir neitaði að skrifa undir, enginn áhugi væri á málinu, 10% mundi mæta, 6% hefðu mikinn áhuga á málinu og mundu felldu það. Viljum við virkilega hafa það þannig að 6% þjóðarinnar geti fellt lög úr gildi frá Alþingi? Nei, ekki að mínu mati. Það verður að vera einhver takmörkun, einhver.

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um gjá á milli Alþingis og þjóðarinnar og í gangi var ákveðinn ,,undirskriftalisti`` þar sem kom fram að á væru 31.700 manns, en það skrifaði ekki einn einasti maður undir eitt eða neitt. Ég var t.d. settur á þennan lista, ég var á þessum lista. Það var maður úti í bæ sem setti mig á listann, fékk kennitöluna hjá mér og setti mig á listann. Ég skrifaði ekki undir neitt, ég vildi það ekki. Ég gat ekki tekið mig út heldur. (Gripið fram í: Baðstu hann ekki um það?) Nei, nei. Hann bað bara um kennitöluna og setti mig inn. Svona listi segir náttúrlega ekki eitt eða neitt.

Hins vegar myndaðist gjá á milli forseta lýðveldisins og þjóðarinnar í kosningu til forseta því að 28 þúsund Íslendingar ómökuðu sig á kjörstað, þurftu að sýna nafnskírteini og voru sannarlega að ómaka sig til að skila auðu. Þar myndaðist gjá á milli forsetans og þjóðarinnar sem ekki er síðri en sú gjá sem forsetinn taldi að hefði myndast á milli þjóðarinnar og Alþingis og sannanleg.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi það að sagan gerðist í rykkjum, hún gerðist ekki línulega samfellt. Ég er sammála honum. Hann nefndi að þegar spenna myndast í bergi verði stundum allt í einu jarðskjálti. Ákvörðun forsetans var ákveðinn jarðskjálfti og hún myndaði gjár þvers og kruss og skipti þjóðinni upp í marga flokka og einingar. Þar sem forsetar höfðu áður verið sameiningartákn varð forsetinn núna til að sundra þjóðinni. Mér þykir sú þróun mjög miður. Þetta var að frumkvæði forseta Íslands. Hann tók einn þá ákvörðun.

Ég hef löngum lagt það til, frú forseti, að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Ég held að embætti forseta Íslands sé arfleifð af þeim tíma þegar menn vildu hafa kónga, keisara og hirð og það sé algerlega úr takti við tímann í dag að vera með embætti forseta Íslands. Það kostar mikið. Við getum haft forseta Alþingis sem getur tekið að sér vissar skyldur forsetans. Aðrir gætu gert það líka án þess að nokkuð skaðaði og ég veit ekki hvort við þurfum að sækja brúðkaup út um allan heim. Þess vegna gæti einhver ráðherra sem ætti leið hjá mætt á svæðið.

En það sem ég hef aldrei skilið, frú forseti, er hvernig forseti Íslands eða embættið kemur inn í þrískiptingu valdsins. Þrískipting valdsins gengur út á það að borgarinn sé verndaður fyrir ríkisvaldinu með því að skipta valdinu í þrennt: löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald sem er óháð hvert öðru en það merkilega er að forseti Íslands er í tveimur af þessum völdum. Hann er í framkvæmdarvaldinu því hann skipar menn í embætti og hefur mikið hlutverk í stjórnsýslunni og hann er í löggjafarvaldinu með því að þurfa að skrifa upp á lög. Ég sé ekki að þetta sé hrein þrískipting valdsins. Ef þetta er eitthvað annað en formlegt vald sé ég ekki að það þurfi neinn forseta til að stimpla lög.

Það sem ég segi um embætti forseta Íslands hefur ekkert með núverandi persónu þess að gera, heldur er þetta almenn hugleiðing um hvort Ísland sem elsta lýðræðisland, þ.e. sú þjóð sem fyrst stofnaði þing, þurfi nokkuð á forseta að halda. Ég held að hún þurfi ekkert á forseta að halda.

Síðan vona ég að menn fari að ræða málefnin og rökrétt um þessi mál. Mér sýnist að flestir hv. þingmenn vilji setja lög um fjölmiðla og ég ætla að vona að menn fari að láta af þessu valdabrölti og snúi sér frekar að því að finna bestu leiðina í að koma böndum á fjölmiðla sem flestir eru sammála um að þurfi.