Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 20:09:26 (9612)

2004-07-21 20:09:26# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[20:09]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa rangnefnt hinn ágæta hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem ég kallaði öðru nafni. En tvær Jónínur hafa einmitt komið við sögu þessa hundrað daga stríðs og hin er líka mikil valkyrja.

Ég fæ ekki svar við fyrirspurn minni. Það er slæmt vegna þess að formaðurinn virðist ekki vilja fallast á þann skilning minn að það sé ekki meiri hluti nefndarinnar sem telur að umrædd lög standist stjórnarskrána heldur minni hluti nefndarinnar. Ég skil ekki af hverju hann getur ekki viðurkennt það. Fjórir sjálfstæðismenn sem sitja í nefndinni telja að þetta standist stjórnarskrána. Aðrir telja það annaðhvort ekki eða skrifa undir álitið með fyrirvara við þá fullyrðinu að þetta samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar. Minni hluti allshn. og sennilega minni hluti þingsins, þar sem Framsfl. stendur væntanlega á bak við hv. þm. Jónínu Bjartmarz í þessu efni, hefur þá skoðun.

Ég vil ósköp einfaldlega fá formann allshn. til að leiðrétta þessa fullyrðingu í nefndaráliti sem þegar hefur verið viðurkennt af hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að sé gallað, sennilega skrifað í flýti nema eitthvað hafi misfarist á leiðinni úr tölvunni í stjórnarráðshúsinu yfir í tölvu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns allshn.