Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:27:07 (9621)

2004-07-22 10:27:07# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:27]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandræðagangurinn verður ekki meiri. Hann verður ekki meiri hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, enda er þetta í besta lagi populismi á hæsta stigi að taka U-beygju í grundvallarmálum eins og þessu. Nú er það svo að akkúrat á þessum tíma, sem hefur verið svolítið sérstakur í íslenskum stjórnmálum, getur vel verið að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telji sig vera að slá einhverjar póliltískar keilur, sem og aðrir þingmenn Samf. En ég vil hins vegar hvetja þá til að hugsa þetta mál til enda af þeirri einföldu ástæðu að allir sjá sem þetta skoða að stjórnskipunin mun ekki ganga upp, hún mun einfaldlega ekki ganga upp ef við mundum senda öll þau mál sem eru erfið í þjóðaratkvæðagreiðslu, og svo sannarlega munu þeir sem hér sitja í framtíðinni hvort sem það verðum við eða aðrir þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Ef erfiðum ákvörðunum yrði í hvert skipti vísað til þjóðarinnar, þá mundum við sitja uppi með stjórnskipun sem mundi ekki gera þjóðinni gott. Það segir sig sjálft og alls staðar þar sem slíkt eða svipaðir hlutir hafa verið praktíseraðir hefur það ekki gert viðkomandi þjóðfélögum gott.

Nú er farið að líða að lokum þessarar umræðu og ágætt að þjóðin fái hvíld, en ég vona að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sýni þá ábyrgð að hugsa þetta mál til enda og vega ekki að Alþingi heldur frekar styrkja það og styrkja þá stjórnskipun sem er ein af þeim ástæðum að við Íslendingar getum borið okkur saman við flestar aðrar þjóðir með stolti.