Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:52:04 (9627)

2004-07-22 10:52:04# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort við bætum okkur mikið með því að dýpka þetta far meira. Þessi umræða fór í aðalatriðum fram í gær.

Ég held að ég hafi ekki sérstaklega fjallað um virðingu þingsins í tengslum við það sem sumir sjá fyrir sér, að það færi í gang viðræðuferli milli forsetans og Alþingis eða forsetans og stjórnmálaafla um mál sem möguleiki væri á að forseti synjaði staðfestingar. Ég hef verið að reyna að draga upp fyrir mönnum hvaða farveg slík mál lenda í og hvers konar vitleysa getur á endanum komið út úr því, fari í gang samningaviðræður milli forsetans og þingsins. Hefur hv. þm. Halldór Blöndal hugleitt það og telur hann virkilega að það eigi að gerast? Sér hv. þm. fyrir endann á því hvernig það getur þróast?

Það að halda því fram að með því að forseti samþykki framlagningu máls, stjórnarfrumvarps, þá sé hann skyldugur til að staðfesta það í endanlegri, kannski verulega breyttri mynd, þegar það kemur frá Alþingi (HBl: Ég er að tala um óbreytta mynd.) er að mínu mati alveg fráleitt. Ábyrgð forseta gagnvart þeirri stjórnarathöfn liggur allt öðruvísi en staða hans samkvæmt 26. gr. Það hlýtur hv. þm. líka að viðurkenna.

Ég er þeirrar skoðunar að menn þurfi að hugsa þessa hluti mjög vel og átta sig á því inn á hvaða braut slíkt getur leitt. Eins og ég sagði í gær er ég satt best að segja, virðulegur forseti, mjög undrandi á því hve lítið stjórnarþingmenn, sem ætla sér að standa að þessari afgreiðslu mála eins og frv. ber með sér, að bera pólitísk ábyrgð á þessum viðbrögðum við ákvörðun forsetans frá 2. júní, hafa rætt þennan þátt málsins, að virkja stöðvunarvaldið og skilja það eftir hjá forsetanum í stað þess að láta það ganga til þjóðarinnar eins og hugsunin var.