Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:54:20 (9628)

2004-07-22 10:54:20# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er dæmigert fyrir málflutning hv. þm. að ég talaði um frumvarpið í óbreyttri mynd en þá talaði hv. þm. um frv. í ,,kannski verulega breyttri mynd`` til að þurfa ekki að tala um hlutina eins og þeir voru sagðir.

Í annan stað vil ég minna hv. þm. á að þeir hittast reglulega, forseti lýðveldisins og forsrh. Til þess er ætlast að forsrh. sé hreinskilinn við forseta og skýri honum frá því hvernig mál standa, hvaða hugmyndir séu uppi í ríkisstjórninni og fari yfir þjóðmálin í heild sinni. Við skulum ætla, ef þeir tveir æðstu menn ríkisins hittast, að slíkur trúnaður og slík skoðanaskipti eigi að vera gagnkvæm, ekki einungis að forsrh. upplýsi forseta heldur hljótum við að ætla að forseti eigi þá líka að upplýsa forsrh. Ég er þá ekki að tala um sérstakar persónur, enda kemur slíkt fram í sambandi við setningu stjórnarskrárinnar á sínum tíma að þar eru menn að tala um að gott samband og náin samvinna eigi að vera á milli þessara tveggja embætta.