Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 10:59:12 (9631)

2004-07-22 10:59:12# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á þetta í gær, varðandi það starf sem fram undan er á sviði fjölmiðlamálanna. Ég tel langbest að menn gangi til þess verks óbundnir af öllum skilyrðum og miklum yfirlýsingum um það fyrir fram hvað út úr því eigi að koma og hvenær. Það er ekki hægt að setja einhverja skeiðklukku af stað og láta hana ganga á menn með kröfum um að þeir skili niðurstöðu í haust, fyrir jól, eftir eitt ár eða hvenær það yrði. Ég held að það sé óskynsamlegt verklag.

Ég held að menn eigi ekki að gefa sér neitt fyrir fram um til hvaða ráðstafana kunni að verða gripið í kjölfarið á slíku vönduðu starfi og hvernig það verði gert.

[11:00]

Það er vel líklegt að til greina komi einhverjar lagalegar ráðstafanir, það er alveg rétt, ég hef aldrei neitað því, við gerum það ekki. En við gefum okkur það heldur ekki fyrir fram. Ég minni á að fjölmiðlaskýrslan stóra sem unnin var af nefnd þeirri er Tómas Ingi Olrich, þáv. hæstv. menntmrh. skipaði, veltir upp fjölmörgum mismunandi möguleikum eða úrræðum og leiðum sem til greina koma þar. Ég tel að menn eigi að fara yfir þetta allt saman á nýjan leik og vanda sig í þeim efnum.

Um stjórnarskrána gildir hið sama og ég hef áður sagt. Menn eiga einfaldlega --- og fyrir því er jú hefðin, fyrir því er órofa hefð --- að setjast niður óbundnir til slíks starfs í þverpólitískri nefnd.