Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:41:29 (9642)

2004-07-22 11:41:29# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég tel að það sæmi ekki hv. þm. Bjarna Benediktssyni að minnast á málefnalega umræðu og efnislega umfjöllun. Þegar við stóðum hér, stjórnarandstæðingar, í efnislegri umfjöllun um þetta mál í vor í langri umræðu, einni þeirri lengstu sem á síðari tímum hefur farið fram á Alþingi, hvar var formaður allshn. þá? Eftir honum var kallað í fjölda ræðna. Ég gerði það sjálfur og flutti hér ræður, efnislegar ræður, sem ég get afhent formanni allshn. og hverjum sem vera vill, um þetta mál þar sem rakin voru rök á móti fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fram og aftur, út og suður.

Formaður allshn., nei, hann var ekki í þinginu, hann ósköp einfaldlega var ekki í þinginu á meðan og það var hér enginn fulltrúi allshn. í þinginu þegar efnisleg umræða fór fram. Formaður allshn. á ekkert með það að koma hér og vera með skæting og kjaft eftir þá frammistöðu sína. (Gripið fram í.) Sú sátt sem átti að ná vegna þess ...

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að gæta orða sinna.)

Sú sátt sem ekki náðist en stefnt var að --- skyldi það vera sú sátt sem minnt er á í eftirfarandi orðum, með leyfi forseta?

,,Mikilvægt er hins vegar að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöður.

Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.``

Skyldi það vera þessi sátt sem ekki náðist?

Ef hún náðist ekki þá stendur í sama texta, með leyfi forseta:

,,Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.``

Það er sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hv. formaður allshn. og félagar hans í Sjálfstfl. eru hræddir við.