Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:43:36 (9643)

2004-07-22 11:43:36# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:43]

Frsm. minni hluta allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., lýsir sig algjörlega ósammála því að í því kunni að felast einhver skerðing á mannréttindum ef fólk fær ekki að neyta þess réttar sem ég færði rök fyrir að stofnaðist með því að forseti synji máli staðfestingar skv. 26. gr. Ástæðuna telur hann vera þá helsta, eftir því sem ég réði af máli hans, að þessi réttur væri ekki í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Ef þessi rökfærsla er rétt má leiða líkur að því að hv. þm. telji að hinn almenni kosningarréttur, sem allir njóta, falli ekki undir mannréttindi vegna þess að hann er heldur ekki í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Þessi lógík heldur ekki, herra forseti. Það hlýtur hinum löglærða og ágæta formanni allshn. að vera ljóst. Það kemur alveg skýrt fram í því áliti sem við fengum frá Ragnari Aðalsteinssyni að hann telur að þessi réttur séu mannréttindi.

Hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða mín er sú að yfirgnæfandi líkur séu til að dómstólar mundu telja afturköllun fyrirhugaðs þjóðaratkvæðis með því að fella lögin úr gildi án frekari aðgerða ógilda, ...``

Auðvitað hefur hv. þm. fullt leyfi til að vera annarrar skoðunar, en hann getur ekki gert það með þeirri röksemdafærslu sem hann flutti hérna áðan.

Að því er varðar síðan þær yfirlýsingar sem er að finna í nál. um jákvæðar undirtektir okkar formanna stjórnarandstöðuflokkanna vil ég segja að hv. þm. hefði nú átt að lesa þau ummæli sem höfð voru eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni lengra í grein Morgunblaðsins 15. febrúar. Það er alveg rétt að hv. þm. sagði þar að hann teldi ekki ástæðu til að ætla annað en að samstaða gæti tekist um að færa orðalag I. og II. kafla stjórnarskrár til samræmis við nútímann og skýra þar ýmislegt.

Hvað segir svo hv. þm.? Hann segir, með leyfi forseta:

,,Öðru máli kynni að gegna ef fara ætti út í grundvallarbreytingar á sjálfri stjórnskipuninni.``