Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:49:20 (9644)

2004-07-22 11:49:20# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:49]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Enda þótt ég líti ekki á fjölmiðlamálið sem stærsta átakamál okkar samtíðar þá er það gríðarlega mikilvægt því að það hefur verið afhjúpandi fyrir valdhroka einnar ríkisstjórnar. Hún ætlaði að keyra vilja sinn í gegn hvað sem það kostaði þvert á þjóðarvilja, þvert á lýðræðisleg og skynsamleg vinnubrögð. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gafst upp fyrir sterkri samstöðu í þjóðfélaginu og sameinaðri stjórnarandstöðu. Og ekki má gleyma því að það var málskotsréttur forseta Íslands sem skipti sköpum í þessu máli. Hann virkaði. Það er grundvallaratriði.

Markmiðin sem eru fest í letur í 26. gr. stjórnarskrár Íslands gengu eftir. Hinn lýðræðislegi varnagli hélt. Ég hef lýst því yfir að það hljóti að vera til umræðu hvernig þeim varnagla er best fyrir komið til framtíðar og það sem meira er að þjóðinni verði búið meira frumkvæðisvald um hvaða mál skuli tekin til úrskurðar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

26. gr. stjórnarskrárinnar er of takmörkuð hvað þetta snertir þótt hún hafi nú reynst mikilvægur varnagli í þingræðisfyrirkomulaginu og orðið til að hnekkja gerræðislegum vinnubrögðum. Það er mikilvægur árangur.

Spurt hefur verið hvort sú aðferð sem nú er beitt standist stjórnarskrá. Fram hefur komið að um það eru skiptar skoðanir innan þings sem utan.

Að mínu mati getur þó enginn stutt þá aðferð án þess að hafa þar mikilvægan fyrirvara á, því að með því að fara þessa leið, með því að nema lögin úr gildi og þar með afnema tilefni þess að forseti beitti málskotsrétti er stjórnarmeirihlutinn að taka á sig verulega siðferðilega ábyrgð. Í verki þarf hann að sýna að ekki vaki fyrir honum að sniðganga markmið stjórnarskrárinnar. Hann þarf að sýna með framferði sínu að hann ætli ekki að hafa sitt fram með góðu eða illu og þannig í reynd hafa ákvörðunarvaldið af þjóðinni.

Hvernig getur hann borið sig að? Setja málið á byrjunarreit með nýrri fjölmiðlanefnd, breiðri lýðræðislegri aðkomu og rúmum tíma. Aðeins með því móti væri fyrra mál út af borðinu. Þannig yrðu settar niður illvígar deilur og þess freistað að ná niðurstöðu sem víðtæk samstaða gæti skapast um.

Færi málsmeðferðin inn í slíkan farveg hefði hún minn stuðning. Stjórnarskrá er ekki bara bókstafur, hún er fyrst og fremst almenn yfirlýsing um leikreglur í samfélaginu. Nú reynir á að þær verði virtar. Nú reynir á anda laganna, þau markmið sem stjórnarskrá Íslands byggir á.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og þeim fyrirvörum sem ég byggi hjásetu á.