Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 22. júlí 2004, kl. 11:52:19 (9645)

2004-07-22 11:52:19# 130. lþ. 137.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, ÖS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Össur Skarphéðinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er söguleg atkvæðagreiðsla. Hér er að ljúka 100 ára stríði ríkisstjórnarinnar við þjóðina. (Gripið fram í: Ára?) --- 100 daga stríði. Herra forseti, þetta hefur sýnst svo miklu lengra en það raunverulega er, en lyktirnar eru jafnágætar fyrir því. Hér er að ljúka 100 daga stríði ríkisstjórnarinnar við þjóðina og þjóðin hefur haft fullan sigur. Stjórnarandstaðan og þau öfl sem hafa stutt hana í baráttunni gegn gerræðislegum verkum ríkisstjórnarinnar í umræddu máli hefur haft sigur. Hér er verið að fella hin umdeildu fjölmiðlalög úr gildi.

Sú yfirlýsing sem af hálfu þingsins felst í þessari samþykkt felur það líka í sér að það var hárrétt ákvörðun hjá forseta Íslands að beita 26. gr. til að synja þessu máli staðfestingar og setja það í ferli þjóðaratkvæðagreiðslu. Sömuleiðis felur þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar í sér áréttingu á mikilvægi 26. gr. og málskotsréttarins sérstaklega sem eins af grundvallaratriðum í stjórnskipan okkar. Því segi ég það, herra forseti, að við eigum að læra af þessu máli, við eigum ekki að hrófla við slíkum grundvallarstoðum eins og það ákvæði hefur reynst vera við þessar aðstæður.

Herra forseti. Það ríkir stjórnskipulegur vafi á því hvort unnt sé að taka mál sem búið er að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu úr henni. Það er sökum þess sem við getum ekki tekið ábyrgð á þessu verki. Þess vegna sitjum við hjá, herra forseti.