Afbrigði

Miðvikudaginn 01. október 2003, kl. 16:18:22 (11)

2003-10-01 16:18:22# 130. lþ. 1.91 fundur 35#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Forseti (Halldór Blöndal):

Leita þarf afbrigða frá þingsköpum þar sem samkomulag er milli þingflokka um annan ræðutíma í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra annað kvöld en kveðið er á um í 2. mgr. 73. gr. þingskapa, þ.e. að umferðir verði þrjár, 12 mínútur, 6 mínútur og 5 mínútur en forsætisráðherra hafi 20 mínútur í framsögu. Skoðast afbrigðin samþykkt ef enginn hreyfir andmælum.

Þá vil ég geta þess að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir er heyrnarlaus og þarf túlka við störf sín hér á Alþingi. Þegar hún flytur mál sitt á táknmáli úr ræðustóli í þessum sal munu túlkar taka sér sæti í þingsalnum við varamannsborðið hér fremst og flytja ræðu hennar munnlega. Skoðast þessi framkvæmd skv. 54. gr. þingskapa samþykkt svo og seta utanþingsmanna, þ.e. túlkanna í salnum á þingfundi, ef engar athugasemdir eru gerðar. Ræður Sigurlínar, eins og túlkarnir flytja þær, verða teknar upp og prentaðar í þingtíðindum eins og ræður annarra þingmanna.

Þá þarf að leita afbrigða frá þingsköpum þegar hlutað verður um sæti hér á eftir til að tveir hv. þm., Helgi Hjörvar og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, sem dregur fyrir hönd Gunnars Örlygssonar, geti fengið sæti sem hentar fyrir þann búnað sem þau þurfa að hafa í þingsalnum meðan þingfundur stendur. Þetta eru sæti 32 fyrir Helga Hjörvar og 52 fyrir Gunnar Örlygsson og varamann hans, Sigurlín Margréti Sigurðardóttur. Skoðast afbrigðin samþykkt ef enginn hreyfir andmælum.