Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 19:53:26 (14)

2003-10-02 19:53:26# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[19:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti, góðir Íslendingar.

Þing kom saman skamma hríð í vor, eins og lög standa til að loknum almennum kosningum, og þar var stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar kynntur og ræddur. Þetta haust og hin næstu mun útfærsla sáttmálans skýrast ár frá ári í stefnuræðu forsætisráðherra og af lista yfir þau frumvörp sem einstakir ráðherrar hyggjast leggja fyrir þingið til afgreiðslu veturinn sem í hönd fer.

Það kom ýmsum á óvart að skattalækkanir voru það einstaka mál sem átti mestan samhljóm hjá stjórnmálaflokkunum í síðustu kosningabaráttu, þótt ekki væri það undantekningarlaust. Útfærsla flokkanna á þessu skattalækkanamarkmiði var auðvitað ólík en upp úr stóð að flestir þeirra virtust telja að svo vel hefði miðað í efnahagsmálum að undanförnu að á komandi kjörtímabili væri svigrúm til að koma til móts við landsmenn í skattamálunum. Því ætti það að vera fagnaðarefni að í stjórnarsáttmálanum er mjög afgerandi ákvæði um þann þátt. Á þessari stefnu er hnykkt í þjóðhagsáætlun þeirri sem ég hef kynnt þinginu, þar sem lögð er áhersla á að um 20 milljörðum króna verði á kjörtímabilinu varið til skattalækkana. Þeirri tölu er ekki fastar slegið nú, þar sem útfærsla einstakra breytinga er enn eftir og kjarasamningar liggja enn ekki fyrir. Fram hefur komið að ég og fjármálaráðherrann litum svo á að hátekjuskattur væri með lögum sjálffallinn niður um næstu áramót. Niðurstaða stjórnarflokkanna varð engu að síður sú að framlengja skattinn en þó stiglækkandi og jafnframt verður lögfest samkomulag stjórnarflokkanna um hvernig hann skuli hverfa.

Herra forseti. Ljóst má vera að áferð efnahagslífsins verður nokkuð sveiflukennd þetta kjörtímabilið og mun hagstjórn taka mið af því. Reynt verður að halda nokkuð þétt um ríkisútgjöldin þegar þensluáhrif stóriðjuframkvæmda verða sem mest. Þannig er stefnt að því að tryggja afgang á ríkissjóði árin 2005 og 2006, sem og á næsta ári. Munu skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu því halda áfram að lækka á þessu tímabili. Virðist hagstjórn að þessu leyti vera að takast mun betur hér á landi en annars staðar, þar sem ófrávíkjanlegar reglur um ríkissjóðshalla eru þverbrotnar hvað eftir annað.

Árið 2007 verður aðeins slakað á aðhaldi í ríkisbúskapnum til að milda þær breytingar sem verða við lok stóriðjuframkvæmdanna.

Vil ég, herra forseti, þá víkja að nokkrum áhersluatriðum einstakra ráðuneyta:

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að öryggi borgaranna verði að hafa forgang. Ríkisvaldið hefur þar ríkum skyldum að gegna og er nauðsynlegt að líta til alls þess sem getur raskað því öryggi. Lögregla, landhelgisgæsla og almannavarnir gegna lykilhlutverki við framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og er brýnt að hún byggist á raunsæi og að þessum aðilum séu sköpuð nauðsynleg starfsskilyrði. Dómsmálaráðherra hefur boðað að hann vilji beita sér fyrir breytingum á umdæmaskipan við löggæslu og innra starfi lögreglunnar án þess að fækka sýslumönnum. Nauðsynlegt er að laga starf Landhelgisgæslunnar að nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun á flugflota hennar. Yfirstjórn almannavarna var breytt á síðasta þingi og verður frekar unnið að endurbótum að því er varðar stjórnkerfi, viðbúnað og hættumat.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að meðal helstu markmiða hennar á kjörtímabilinu sé að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur.

Sérstakur verkefnisstjóri og þriggja manna ráðgjafarhópur félagsmálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis vinnur að mótun tillagna um útfærslu á 90% lánum til íbúðakaupa. Náið samráð verður haft við helstu hagsmunaaðila.

Félagsmálaráðherra leggur áherslu á að svo verði búið um hnútana að breytingar sem verða gerðar falli vel að þörfum almennings en um leið verði þess gætt að ekki verði raskað stöðugleika í efnahagsmálum, eða á húsnæðismarkaði sérstaklega.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett fram það sjónarmið að nú sé rétt að kanna kosti þess að færa veigamikil verkefni heilbrigðisþjónustunnar til sveitarfélaganna. Sérstaklega yrði horft á heilsugæsluna og öldrunarþjónustu í þessu sambandi. Markmiðið væri að flytja stjórn heilbrigðisþjónustu nær borgurunum, gera hana gegnsærri og um leið auka lýðræðislegt aðhald notendanna. Akureyri og Hornafjarðarbær hafa um nokkurra missira skeið séð um rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu og hefur reynslan verið góð.

[20:00]

Á síðasta þingi voru sett ný raforkulög sem hafa munu í för með sér verulegar breytingar á umhverfi raforkumála á Íslandi. Á komandi þingi er áformað að leggja fram frumvarp um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, vatnalög og frumvarp til laga um hitaveitur en ekki er nú heildarlöggjöf um starfsemi þeirra.

Ísland hefur sérstöðu meðal þjóða heims en hér á landi er notkun endurnýjanlegrar orku langhæst í heiminum, eða 72%. Þetta hefur vakið athygli og áhuga margra á íslenskum orkumálum og eins hafa áform ríkisstjórnarinnar um að nýta orkulindir landsins til framleiðslu á hreinu eldsneyti vakið nokkra athygli umheimsins.

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár stutt við þróun í átt til sjálfbærs vetnissamfélags og hafa Íslendingar fengið viðurkenningu sem frumkvæðisþjóð á því sviði. Í stjórnarsáttmála segir m.a. að stefnt skuli að frekari áföngum í vetnisnotkun svo orkunotkun landsmanna megi byggja enn frekar á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi hefur batnað verulega á undanförnum árum og skiptir það miklu í aukinni alþjóðlegri samkeppni. Ötullega hefur verið unnið að því að kynna Ísland sem fjárfestingarkost. Einkum hefur þá verið horft til þess að laða til landsins aðila sem gætu nýtt sér orkulindir þess. Er nú svo komið að Ísland mun innan fárra ára teljast með helstu framleiðendum áls í Evrópu. Þessi aukna álframleiðsla hefur þegar skapað tækifæri í skyldum iðnaði. Nefna má til dæmis hagkvæmnisathugun fyrir rafskautaverksmiðju í Hvalfirði. Slík verksmiðja mundi skapa um 140 störf. Fjárfestingin er metin á um 17 milljarða íslenskra króna. Þá standa yfir viðræður um möguleika á því að reisa hér álþynnuverksmiðju. Hafa japanskir fjárfestar kynnt sér aðstæður á Íslandi en sendiráð Íslands í Tókíó hefur unnið að framgangi verkefnisins ásamt Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar. Slík starfsemi mundi kalla á um 50 störf. Nú er beðið lokaákvörðunar bandarískra fjárfesta um byggingu stálpípuverksmiðju í Helguvík. Allir samningar sem snúa að opinberum aðilum hér á landi eru frágengnir. Þetta verkefni mundi skapa um 200 störf.

Ríkisstjórnin hyggst einnig leggja fram á þessu þingi frumvarp til laga um fjárfestingar erlendra aðila sem tekur mið af þeim breytingum sem orðið hafa á bæði ytra og innra umhverfi fjárfestingarmála frá því að gildandi lög voru sett. Í frumvarpinu verður ekki gert ráð fyrir breytingum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að aðlögunarhæfni íslensks landbúnaðar verði aukin og samkeppnisstaða hans styrkt til að mæta vaxandi samkeppni og uppfylla jafnframt kröfur neytenda um hreinleika og hollustu búvara.

Aukin áhersla verður lögð á hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins í samfélagi okkar og gildi þess fyrir byggð og búsetu í landinu. Landbúnaðarráðherra hefur beitt sér fyrir auknu vægi umhverfisgilda í landbúnaði framtíðarinnar. Þátttaka bænda í skógræktar- og landgræðsluverkefnum hefur eflst til muna.

Þrátt fyrir nokkra erfiðleika í greininni að undanförnu er ekki minnsta ástæða til að missa trú á íslenskum landbúnaði og kostum hans. Sannarlega þarf að auka sveigjanleika landbúnaðarins. Leggja verður áherslu á menntun, þróun og rannsóknir og efla nýsköpun í nýjum búgreinum og nýta sóknarfæri í þeim greinum sem fyrir eru.

Herra forseti. Traust menntakerfi er grundvöllur sóknar til betri lífskjara. Árangur okkar í alþjóðlegum samanburði staðfestir að fjárfesting í menntun gefur ríka og örugga ávöxtun. Íslendingar verja 6,3% af vergri þjóðarframleiðslu til menntamála sem er mun meira en gert er að meðaltali í öðrum OECD-ríkjum. Sífellt hærra hlutfall þjóðarframleiðslunnar rennur til menntamála. Árið 1990 vorum við nokkuð undir meðaltali annarra OECD-ríkja en nú skipum við okkur á bekk með þeim þjóðum sem leggja allra mest til þessa málaflokks. Er það mikið fagnaðarefni.

Ferskir vindar hafa blásið um íslenskt skólaumhverfi á síðustu árum og það einkennist nú af miklum sóknarhug. Á aðeins tólf árum hefur fjöldi háskólanema næstum þrefaldast hér á landi. Jafnframt hefur fjöldi framhaldsskólanema vaxið hröðum skrefum og nú kjósa um 93% ungmenna að leggja stund á framhaldsnám að loknum grunnskóla.

Menntamálaráðherra lagði nú í vikubyrjun fram hugmyndir um grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi. Eftir áralangan undirbúning er komið að ákvörðun um hvort og hvernig beri að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Mikilvægt er að slík breyting sé gerð í góðu samráði við kennara, foreldra og nemendur.

Frá því ríkisstjórnin tók ákvörðun hinn 11. febrúar síðastliðinn um að veita einn milljarð króna til byggingar menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmda og horfir vel. Þá hefur verið gengið frá samningum við bæjarstjórn Ísafjarðar um hlut ríkisins í uppbyggingu menningarhúsa þar í bæ. Með byggingu menningarhúsanna er lagður grunnur að öflugra og blómlegra menningarlífi á landsbyggðinni.

Með stofnun Vísinda- og tækniráðs fyrr á þessu ári var stigið stórt skref í þá átt að samhæfa stefnu hins opinbera á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar og tengja hana betur þeirri rannsókna- og þróunarstarfsemi sem fram fer í atvinnulífinu.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir verulegri aukningu á fjárveitingum til málaflokksins strax á næsta ári en jafnframt stefnir ríkisstjórnin að því að tvöfalda framlög til samkeppnissjóða á kjörtímabilinu.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur samgönguráðuneytið lagt ríka áherslu á öryggismál sjófarenda í samvinnu við sjómenn og útvegsmenn. Haldið verður áfram á þeirri braut. Einkavæðing skipaskoðunar hér á landi er liður í þeirri stefnu, enda á því byggt að hvergi sé slegið af kröfum og unnið verði í samræmi við langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda.

Eins og flestir vita hefur stórátak verið gert í vegamálum á undanförnum 12 árum. Hefur aldrei áður verið ráðist í framkvæmdir í jafnríkum mæli, og á þessu kjörtímabili verða framkvæmdir enn auknar verulega. Þá verður einnig gert sérstakt átak í að sníða af hættulega kafla á vegakerfi landsins og bæta merkingar á vegum um allt land.

Ég tel að reynslan hafi sýnt að frestun á sölu á Landssímanum hf. var skynsamleg. Aðstæður fjarskiptafyrirtækja á fjármálamarkaði hafa nú breyst til betri vegar og standa vonir til að Landssíminn hf. verði seldur á þessu kjörtímabili.

Til að efla ferðaþjónustuna á viðkvæmum tíma beitti samgönguráðherra sér fyrir stórauknum fjárveitingum til markaðssetningar og landkynningar. Var það verk unnið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila í greininni. Aðgerðirnar hafa skilað góðum árangri. Ákveðið hefur verið að halda áfram öflugri landkynningu með það að meginmarkmiði að auka vöxt og styrkja stoðir íslensks atvinnulífs með sókn ferðaþjónustunnar á nýja markaði, svo sem í Japan, samhliða auknum markaðsaðgerðum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Herra forseti. Unnið verður að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða svo hægt verði að hrinda í framkvæmd upptöku veiðileyfagjalds hinn 1. september 2004. Þá verður sömu lögum breytt svo að hægt verði að taka upp línuívilnun á næsta ári. Upphaf hvalveiða í vísindaskyni fékk minni andbyr erlendis en spáð var. Málið er þó mjög viðkvæmt og nauðsynlegt að sýna varfærni og tillitssemi þegar næsta skref vísindaveiðanna verður stigið.

Umhverfismál munu verða áberandi í störfum þingsins á næstunni. Umhverfisráðherra mun leggja fyrir Alþingi tillögu að náttúruverndaráætlun til næstu fimm ára, hina fyrstu sinnar tegundar.

Þá er í undirbúningi endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem ætlunin er að færa íslenska löggjöf til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Þess er vænst að fljótlega verði hægt að stofna Vatnajökulsþjóðgarð sem yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu en auk þess er til athugunar í sérstakri nefnd að stofna til verndarsvæðis norðan Vatnajökuls sem tengdist væntanlegum þjóðgarði.

Herra forseti. Á þessu þingi verða lagðir fram samningar um stækkun bæði Atlantshafsbandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Fullgilding þessara samninga mun gefa ríkjum Mið- og Austur-Evrópu kost á því að taka þátt í því farsæla samstarfi sem Ísland hefur notið góðs af, bæði í öryggis- og varnarmálum og við samræmingu rekstrarskilyrða atvinnulífsins og opnun markaða. Endir verður bundinn á áratugalanga skiptingu Evrópu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið og utanríkisráðherra kynnt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að Ísland verði í framboði til sætis í öryggisráðinu tímabilið 2009--2010. Öll ríki Norðurlanda styðja þetta framboð. Er þetta eitt stærsta verkefni sem íslenska utanríkisráðuneytið hefur ráðist í.

Árið 1997 tók ríkisstjórnin ákvörðun um eflingu þróunaraðstoðar fram á þetta ár. Var markið sett á að hækka framlög til þróunarsamvinnu úr 0,10% af þjóðarframleiðslu í 0,15% árið 2003. Við þetta hefur verið staðið og ríflega það. Næsta verkefni er að athuga hvernig best megi standa að því að auka hlut Íslands enn og hvernig framlög geti komið að sem mestu gagni, hvort sem um er að ræða tvíhliða eða marghliða þróunaraðstoð. Starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar og Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hefur skilað umtalsverðum árangri og efling friðargæslu hefur orðið Íslandi til vegsauka á alþjóðavettvangi.

Varnarmál Íslands og samskiptin við Bandaríkin voru í brennidepli í sumar. Það hefur verið skýrt í mínum huga allt frá því að byrjað var að fækka í Keflavíkurstöðinni, í kjölfar loka kalda stríðsins, að ætti varnarsamstarfið við Bandaríkin að halda gildi sínu yrði það að þjóna áfram öryggishagsmunum beggja. Það þýddi meðal annars að hér sem í öðrum löndum þyrftu að vera tilteknar lágmarksvarnir gegn hugsanlegum nýjum ógnum.

Í byrjun maí kom sendiherra Bandaríkjanna til fundar við mig með þau ,,skilaboð frá Washington``, eins og það var orðað, að ákveðið hefði verið að leggja niður loftvarnir á Íslandi. Eftir bréfaskipti milli mín og forseta Bandaríkjanna, viðræður við öryggisráðgjafa hans og beina íhlutun forsetans sjálfs eru varnarmálin í eðlilegum farvegi á ný. Það þýðir að þau verða leyst sameiginlega en ekki afgreidd einhliða sem hefði eyðilagt grundvöll varnarsamningsins. Til þess var greinilega ekki vilji á æðstu stöðum í Washington, enda að baki áratugalöng samvinna og gagnkvæmt traust á milli Íslands og Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Sú ákvörðun sem tekin var í vor um að skipa Íslandi í sveit með rúmlega þrjátíu öðrum ríkjum í bandalag hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu átti sér skýrar forsendur. Stjórn Saddams Husseins var ógn við frið og stöðugleika í heiminum og hafði í meira en áratug hunsað ályktanir og kröfur Sameinuðu þjóðanna um afvopnun. Ekki mátti bíða eftir að henni yxi ásmegin og yrði enn hættulegri en áður. Íraksstríðið, sem þannig var löghelgað af samþykktum Sameinuðu þjóðanna, kom í veg fyrir það og frelsaði íröksku þjóðina undan Saddam Hussein og böðlum hans. Nú er unnið að því að koma landinu á réttan kjöl eftir hremmingar harðstjórnarinnar. Þá stefnu hljóta allir, sem vilja frið í þessum heimshluta, að styðja af heilum hug. Ísland hefur þegar lagt sitt af mörkum til uppbyggingarstarfsins í Írak og mun halda því áfram.

Síðastliðinn vetur leit um tíma út fyrir mikla erfiðleika í samskiptum landsins við Evrópusambandið. Þeir komu upp í samningum EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stækkun þess til austurs og þar með stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Erfiðleikarnir stöfuðu einkum af kröfu framkvæmdastjórnarinnar um að EFTA-ríkin greiddu margfalt meira en áður í þróunarsjóði ESB sem veita styrki til fátækari ríkja sambandsins.

Deilan leystist eftir að framkvæmdastjórnin sló stórlega af upphaflegum kröfum. Í ljós kom að þær nutu ekki almenns stuðnings meðal aðildarríkjanna. Það sýnir, að mínu mati, ríkan pólitískan vilja innan Evrópusambandsins til þess að EES-samningurinn haldi áfram að virka vel.

Um síðustu áramót lagði ég til að skipuð yrði nefnd allra flokka til að fjalla á faglegan hátt um veigamikil álitaefni sem snerta Evrópumálin. Með þessu yrði komið til móts við óskir um upplýsta umræðu um þennan málaflokk. Það tókst ekki að koma nefndinni á fót fyrir kosningar. Það á sér eðlilegar skýringar og nú er stefnt að stofnun hennar. Nefndinni verður einkum ætlað það að skýra og skerpa umræðuna, greina aðalatriði málsins og helstu staðreyndir þess. Þetta á til dæmis við um atriði eins og framkvæmd EES-samningsins, hvort varanlegar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum og þá hvers konar undanþágur, hvað Evrópusambandsaðild mundi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið, hverjir væru kostir og gallar evru fyrir Ísland o.s.frv., svo aðeins örfá álitaefni séu nefnd til sögu.

Herra forseti. Það er samkomulag stjórnarflokkanna að hinn 15. september 2004 taki hæstvirtur utanríkisráðherra við embætti forsætisráðherra og utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti flytjist á forræði Sjálfstæðisflokksins. Og nú, þegar ég hef lokið flutningi 17. stefnuræðu minnar frá vordögum 1991, er því ljóst að þetta verður síðasta stefnuræða mín, í þessum áfanga.

Einn háttvirtur þingmaður stjórnarandstöðunnar hefur sagt í hvert eitt sinn þegar ég hef lokið flutningi stefnuræðu að hann verði því miður að segja að þetta sé einhver sú ,,snautlegasta`` stefnuræða sem hann hafi heyrt. Ég vonast til að háttvirtur þingmaður breyti ekki vana sínum nú því ég get ekki neitað því að svona staðfesta og íhaldssemi snertir viðkvæman streng í brjósti mínu.

Góðir áheyrendur. Hvað sem öllum deilum líður vonast allur þingheimur til að það þing sem nú er að hefjast verði landi og þjóð til fremdar og farsældar.