Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 20:15:51 (15)

2003-10-02 20:15:51# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[20:15]

Össur Skarphéðinsson:

Góðir Íslendingar. Góðir tilheyrendur. Við erum stöðugt minnt á að það er ekkert öruggt í þessu lífi. Það er örskammt síðan góður vinur Íslendinga, góður evrópskur jafnaðarmaður, sænski utanríkisráðherrann Anna Lindh féll fyrir hendi ofbeldismanns. Anna Lindh var fyrirmynd kvenna og ungra stjórnmálamanna um alla Evrópu. Þetta var hörmulegur atburður, einn af þeim sem mun okkur seint eða aldrei úr minni líða. Við munum flest þegar Anna Lindh kom hingað og heimsótti okkur á liðnum vetri með fjölskyldu sinni og við munum það að hún framlengdi dvöl sína umfram það sem opinbert var af heimsókninni vegna þess að hér átti hún vini, vegna þess að hún hreifst af Íslandi. En atlagan að Önnu Lindh leiðir líka hugann að því hvað það skiptir máli fyrir okkur öll og ekki síst okkur stjórnmálamenn sem störfum í umboði almennings, að nota vel þann tíma sem okkur er gefinn. Lát hennar beinir sjónum að grundvallaratriðum sem við stjórnmálamenn gleymum því miður allt of oft í erli hins pólitíska hversdags, að lífsgildum, að lífsgæðum, að því í hvernig samfélagi við viljum búa.

Í Reykjavík gerist það að hópur ungmenna ræðst inn á heimili, leggur það í rúst, ógnar lífi og limum. Við sjáum húsfreyjuna á heimilinu á forsíðu Fréttablaðsins standa niðurbrotna við hliðina á mölbrotinni hurð í sinni eigin íbúð. Og hún kærir ekki. Hún leggur ekki í að kæra árásina til lögreglunnar. Þessi íslenska fjölskylda er af asískum uppruna. Þetta er þeirra eigin reynsla. Þessir góðu Íslendingar treysta ekki réttarríkinu sem við höfum verið að byggja upp. Hvernig get ég sem stjórnmálamaður dregið þá niðurstöðu í efa? Ég get það ekki. Þetta er íslenskur reynsluheimur dagsins í dag. Ekkert okkar vill svona samfélag en við eigum og við verðum að tala um þessa hluti.

Flestir þingmenn jafnaðarmanna studdu virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. En við styðjum ekki að réttindabarátta verkalýðshreyfingarinnar, sem svo að segja sérhver Íslendingur nýtur góðs af í dag, sé skrúfuð áratugi aftur í tímann. Og við styðjum ekki að langvarandi sátt um laun, um aðbúnað, um réttindi, um leikreglur sé með þessum hætti brotin á bak aftur eins og við höfum séð tilraunir til við Kárahnjúka. Þetta er líka spurning um lífsgildi. Þetta er líka spurning um það hvers konar samfélag við viljum skapa. Og við kaupum hvorki stórvirkjanir né tímabundna hagsæld því verði sem felst í því að sjá á bak grundvallarmannréttindum.

Góðir Íslendingar. Það árar vel og það er gott að vera Íslendingur í dag. Samstaðan sem náðist um stórframkvæmdir fyrir austan og raunar víðar getur skapað hófstillt og tiltölulega langvinnt hagsældarskeið ef okkur tekst vel upp með hagstjórnina. Það skiptir öllu máli að við hvorki missum hagkerfið í gamla farið þar sem óhófleg aukning eftirspurnar innan lands kyndir upp verðbólguna og leiðir að lokum til gengisfellingar, né heldur að við töpum því yfir í umhverfi þar sem gengið hækkar úr hófi fram, kreppir að samkeppnis- og útflutningsgreinum, ekki síst á landsbyggðinni, og slítur upp nýgræðinginn sem nú er að brjótast fram í krafti ungs og hámenntaðs fólks. Það þarf agaða hagstjórn og það þarf sterk bein til þess að standa gegn ofþenslu ríkisútgjalda. Samfylkingin mun af ábyrgð stuðla að hvoru tveggja.

Með gætni og með samstöðu ólíkra afla bæði hér í þessum sölum og á vinnumarkaði, er hægt að ná í senn fram meiri hagvexti með minni þenslu en menn töldu áður, bæði sérfræðingar og stjórnmálamenn fyrir síðustu kosningar. Ef það tekst verður á kjörtímabilinu svigrúm fyrir bæði hóflegar skattalækkanir, eins og þær sem Samfylkingin hefur boðað, en jafnframt til þess að hrinda í framkvæmd drjúgum hluta af þeim félagslegu umbótum sem Alþýðusamband Íslands og verkalýðshreyfingin öll hefur rökstutt svo vel. Þannig getum við lagt grunn að traustu atvinnulífi sem byggist í senn á menntun, þekkingu og nýsköpun.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum í þessum sölum að í upphafi þessa þings hefur Samfylkingin lagt þunga áherslu á að lækka matarverð til heimilanna. Fyrstu tillögur okkar að því eru einmitt að nota það svigrúm sem skapast til þess að lækka virðisaukaskatt á matvælum um 5 milljarða. Skattalækkun af því tagi mun nýtast öllum, líka þeim sem hafa svo lágar tekjur að þeir eru undir skattfrelsismörkum, og skattalækkun af þessu tagi mun best nýtast þeim sem hafa minnst umleikis. Þetta er þess vegna jafnaðarstefna í verki. En það vekur óneitanlega athygli að Sjálfstfl. sem byrjar þetta þing á því að boða 20 milljarða skattalækkanir, byrjar að lækka skattana með því að leggja fram fjárlagafrv. þar sem boðað er að hækka álögur á alla landsmenn um 1 milljarð. Ekki byrjar það vel.

Góðir Íslendingar. Spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu verður stöðugt meira knýjandi. Flokkarnir verða að tala skýrt og Samfylkingin hefur talað skýrt í þessu máli. Við teljum að full aðild með evru, Evrópuvöxtum og Evrópuverði á mat, muni færa íslenskum neytendum verulegar lífskjarabætur. Það er það sem spurningin um Evrópu snýst um, að bæta lífskjörin í landinu. En ástæðurnar fyrir því að við eigum samleið með Evrópusambandinu eru ekki aðeins efnahagslegar. Menningarlega og sögulega erum við Íslendingar í innsta kjarna Evrópu. Framlag okkar í formi tungumáls og formi sagna er ómetanlegt. Og þrátt fyrir að við sjáum hversu hratt samrunaferlið í Evrópu gengur um þessar mundir þá er hægt en örugglega að koma í ljós að samfara gríðarlegum efnahagslegum ávinningi halda þjóðirnar samt menningu sinni og sérkennum.

Við skulum heldur ekki gleyma því að Evrópusambandið var upphaflega stofnað til þess að efla frið og öryggi í Evrópu. Og það hefur tekist í þeim mæli að álfan hefur aldrei verið jafnfriðsæl og nú. Við þekkjum það öll að uppi hafa verið viðsjár um okkar eigin öryggismál og við vitum það líka öll að það er ekki lengur á vísan að róa þar sem Bandaríkin eru. Aðild að Evrópusambandinu er því líka liður í að tryggja öryggi okkar í framtíðinni.

Hæstv. forsrh. gerði Íraksstríðið að umræðuefni í ræðu sinni áðan. Stríðsátökum í Írak er enn ekki lokið þótt liðnir séu rúmir fjórir mánuðir síðan Bush Bandaríkjaforseti lýsti yfir sigri í styrjöldinni. Og það kemur sífellt betur og betur í ljós að hyggilegt hefði verið að fara að ráðum þeirra þjóðarleiðtoga í Evrópu og víðar sem hvöttu til aðgerða með skýrum forsendum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Við sjáum það núna að leiðtogar innrásarherjanna eru í miklum vanda á vettvangi í Írak og þeir eru ekki í minni vanda á vettvangi heima vegna þeirra yfirlýsinga sem þeir gáfu um gereyðingarvopnin sem engin hafa fundist. Enn er samt hægt að bæta úr í Írak með því að skapa samstöðu á alþjóðavettvangi undir forustu Sameinuðu þjóðanna um breytta stefnu sem beinist að því að Írakar sjálfir taki sem fyrst við völdum í landi sínu í sæmilegri sátt við grannþjóðir og með stuðningi leiðtoga og almenningsálits í Arabalöndunum.

Í dag er tæp vika síðan utanrrh. lýsti yfir framboði Íslendinga til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Samfylkingin styður það sannarlega. En það er sérkennilegt að forsrh. skuli í stefnuræðu sinni leggja það eitt til þess máls að rifja það sérstaklega upp þegar hann skrifaði landið án samráðs við þing, án samráðs við þjóð, inn á lista svokallaðra viljugra þjóða í aðdraganda Íraksstríðsins, þeirra sem vildu ganga í berhögg við einmitt þær sömu Sameinuðu þjóðir og við nú köllum til áhrifa í.

Auðvitað fagna allir sæmilegir menn falli Saddams Husseins. Undanfarin missiri hefur ástandið í þeim heimshluta hins vegar versnað mjög frá því sem áður var þrátt fyrir fulltingið sem hinir viljugu hafa veitt ráðamönnum í Wash\-ington. Þar veldur auðvitað mestu að svonefndur vegvísir til friðar og friðarferlið allt er nú tómt orð en Ísraelsstjórn reisir um landið háan múr sem vekur óhug um allan heim. En á þeim viðburðum í þessum heimshluta hefur forsrh. hins vegar enga skoðun í stefnuræðu sinni og það gegnir furðu miðað við þær miklu umræður sem átt hafa sér stað um þá atburðarás hér í þessum sölum.

Góðir Íslendingar. Nýtt kjörtímabil er hafið og við í Samfylkingunni horfum til þess með tilhlökkun. Verkefnin hafa sjaldan verið meiri og það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir öfluga hreyfingu jafnaðarmanna en einmitt í dag. Og það duldist engum að Samfylkingin vann góðan kosningasigur í vor og við mætum nú til leiks með 20 vaska þingmenn sem hver og einn mun ekki draga af sér. Í þeim hópi er ungt fólk sem á eftir að láta að sér kveða bæði í forustu Samfylkingarinnar en líka í fremstu röð íslenskra stjórnmála. Styrkur okkar í íslensku samfélagi hefur heldur aldrei verið meiri og hann eigum við ykkur, góðir Íslendingar, að þakka. Það voruð þið sem gerðuð okkur að næststærsta flokki landsins í kosningunum í vor og fyrir það erum við þakklát og við munum hvert og eitt leggja allt undir til þess að vera þess trausts verð. Samfylkingin mun ekki bregðast ykkur, Samfylkingin mun ekki bregðast þjóðinni.