Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:25:21 (23)

2003-10-02 21:25:21# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Góðir Íslendingar. ,,Álvæðum Ísland`` gæti verið slagorð ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Það kemur kannski engum á óvart þó að það gangi fram af mér við að hlusta á boðskap forsrh. í atvinnumálum, en skyldi ekki fleirum en vinstri grænum vera farið að blöskra? Hvernig líst ungu fólki t.d. á þann boðskap að umfram allt þurfi að kynna Ísland sem vænlegan fjárfestingarkost á alþjóðlegum samkeppnismarkaði orkufreks iðnaðar?

Forsrh. stærir sig af því að söguþjóðin norður við ysta haf sé nú að verða með stærstu álframleiðslulöndum álfunnar. Og hann býður upp á enn frekari tækifæri í skyldum iðnaði. Hann nefnir rafskautaverksmiðju, álþynnuverksmiðju og stálpípuverksmiðju. Ég vil leyfa mér að spyrja, eins og unga fólkið, og kannski fyrir munn þess: Er ekki allt í lagi? Eru þetta atvinnutækifærin sem ríkisstjórninni dettur í hug að bjóða ungu fólki sem nú situr á skólabekk og aflar sér fjölbreyttrar menntunar? Skyldi þessi atvinnustefna standa í einhverju sambandi eða samhengi við það að íslensk ungmenni segjast nú helst af öllu vilja flytja af landi brott? Það skyldi þó ekki vera.

Það er sem sagt fjárfestingarkosturinn Ísland sem forsrh. ber fyrir brjósti, rétt eins og Ísland sé til sölu. Það er það kannski í hugum ráðherranna í ríkisstjórninni. Að minnsta kosti eru orkulindirnar okkar falboðnar af þeim um víðan völl. En ég spyr: Hvaða dyrum erum við að loka í andlitið á metnaðarfullum ungmennum í langskólanámi með þeirri ákvörðun að gera Ísland að enn stærri hrávöruútflytjanda en þegar er orðið?

Hvers vegna í ósköpunum er ekki boðskapur ríkisstjórnarinnar fólginn í því að laða hingað til lands fyrirtæki og fjárfesta sem teldu að hægt væri að nýta ósnortin víðerni og náttúruundur þessarar veðurbörðu eldfjallaeyju til verðmætasköpunar í samspili við mannauð þjóðarinnar og menningu? Hvar eru t.d. hugmyndir um alþjóðleg vísindasetur á sviði náttúruvísinda eða hvar eru tækifærin í menningu og listum?

Ungir íslenskir leikarar eru að slá í gegn í London í þessum töluðu orðum, með því að að leika Shakespeare fyrir þá þjóð sem fóstraði Shakespeare. Við alþingismenn og starfsmenn Alþingis fengum að heyra á stórkostlegum tónleikum í Salnum í Kópavogi í gær hvernig Kristinn Sigmundsson er að syngja sig inn í hug og hjörtu frönsku þjóðarinnar í frönsku þjóðaróperunni með því að syngja Mefistó á frönsku. Ógleymanlegt. Og listinn yfir afrek listamannanna okkar er langur og hann er stórmerkilegur. Afrek þeirra auka á samheldni okkar sem þjóðar. Þau hjálpa okkur að hlæja og þau hjálpa okkur að gráta og þau skapa litrík atvinnutækifæri. Ekki fleiri karlastörf í þungaiðnaði.

Í litlu samfélagi skiptir fjölbreytnin sköpum fyrir lífsafkomuna og ekki síður fyrir lífshamingjuna. Og ég fullyrði að ef ríkisstjórnin tæki sér tíma í að hugleiða hamingju þjóðarinnar fengjum við annars konar atvinnustefnu en þá sem forsrh. hefur talað fyrir sautján sinnum í allt.

Ríkisstjórnin er með stefnu sinni í atvinnumálum að koma í veg fyrir það að þúsund blóm fái að blómstra. Hún hrekur unga fólkið af landi brott í leit að tækifærum sem standa ekki til boða í túninu heima. Sem sagt, fólksflóttinn af landsbyggðinni stöðvast ekki í Reykjavík, enda hver trúði í raun og veru að hann gerði það? Ekki ég.

Jú, eitt enn í sambandi við orkulindirnar okkar sem ríkisstjórnin trúir greinilega að séu óþrjótandi. Það er vetnisvæðingin. ,,Við erum að fara að framleiða hið hreina eldsneyti,`` sagði forsrh. Gott og vel. Göfugur tilgangur að því er virðist í fljótu bragði. En hvað hangir svo á vetnisspýtunni? Fleiri virkjanir og meiri náttúruspjöll. Ég spyr: Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að gera allt í senn, að álvæðast og vetnisvæðast á sama tíma? Það hlýtur að vera komið að því að menn opni augu sín fyrir því að þungaiðnaðurinn verður búinn að gleypa alla helstu virkjanakosti okkar áður en við getum farið að vetnisvæðast. Það verður enginn kostur eftir fyrir vetnið.

[21:30]

Og meðan á þessu ál- og stál- og vetniskapphlaupi stendur og Ísland er markaðssett í útlöndum sem óþrjótandi orkulind fyrir þá sem vilja ódýra orku, virðast öll áform um að meta mögulega virkjanakosti, m.a. út frá verndargildi þeirra, vera týnd og tröllum gefin. Eða hvar er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Og jafnvel þó hún líti einhvern tímann dagsins ljós, ætlar ríkisstjórnin þá að það verði til þess að tekið verði mark á henni, að hún hafi eitthvert vægi? Ég hef ástæðu til að efast um það. Ég hef ástæðu til að efast um að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því hvílík náttúrugersemi Ísland er.

Einn áhugaverðasti og jákvæðasti viðburður síðustu vikna sem getið var um í fjölmiðlum var frásögnin af því þegar Hallormsstaðarskóla var afhentur grænfáninn. Myndin af skólanum böðuðum í sólskini meðan fáninn var dreginn að húni er ógleymanleg. Allir með bros á vör og sól í sinni. Þessi mynd vekur upp spurningar um gildismat. Hvað er það í raun og veru sem skiptir mestu máli á þessari eyju okkar á hjara veraldar? Það er ekki orka sem hægt er að selja ódýrt erlendum stórfyrirtækjum, heldur heill og hamingja þjóðarinnar sem á sér rætur í menningu okkar og sögu, grundvallaratvinnuvegum í bland við áræðnar hugmyndir nýsköpunar. Er draumur Davíðs sá að Íslendingar verði einhvern tímann hamingjusamasta álframleiðsluþjóð í álfunni? Slíkur draumur er martröð í mínum huga.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð býður upp á valkost. Okkar framtíðarsýn byggir á jöfnuði og velferð fyrir alla. Hún byggir á öflugu velferðarkerfi og fjölbreyttu atvinnulífi sem er í tengslum við menningu okkar og áhugasvið ungs fólks. Við, vinstri græn, tökum hlutverk okkar í stjórnarandstöðu alvarlega en þó með bros á vör og sól í sinni, eins og börnin í öllum skólunum sem hafa dregið grænfánann að húni. --- Góðar stundir.