Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:32:50 (24)

2003-10-02 21:32:50# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:32]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Málefni sem varða fjölskylduna og fatlaða verða meðal mála sem flutt verða af Frjálslynda flokknum á þessu þingi. Því miður minntist forsætisráðherra ekkert á þessi málefni í stefnuræðu sinni og finnst mér það mjög miður þar sem völd stjórnarflokkanna til að koma málefnum þessum í framkvæmd eru ótrúlega mikil.

Kröfur samfélagsins í dag eru ekki þær sömu og voru fyrir 20 árum. Nú eru þær sumum heimilum ofviða. Börn og unglingar fá jafnvel ekki tækifæri til að stunda heilbrigt íþrótta- og tómstundastarf af þessum sökum. Börn nútímans og framtíðarinnar eiga ekki að líða fyrir aðstæður foreldra sinna. Ég ætla því að leggja til að komið verði til móts við barnafjölskyldur með skattafslætti í þeirri mynd að foreldrar barna og unglinga geti fengið skattafslátt vegna barna sinna undir 16 ára aldri.

Málefni fatlaðra og minnihlutahópa eru Frjálslynda flokknum hugleikin. Stefna hans er skýr: Allir menn skulu vera jafnir að lögum. Því miður hefur borið á því við lagasetningu að málefni þessara þjóðfélagshópa hafi ekki náð fram að ganga.

Lífeyrismál öryrkja og ellilífeyrisþega verður að endurskoða. Hvers konar tekjutengingu á að afnema. Öllum mönnum verði gert jafnhátt undir höfði til að þeir geti lifað af lágmarksbótum sem þeim ber að fá, án allrar tekjutengingar við laun maka. Skerðingar bóta vegna tekjutenginga verður að lagfæra sem fyrst.

Forsætisráðherra virðist annt um að atvinnulíf landsins blómstri. Frekari stóriðjuframkvæmdir áætlar hann að skapi um 200 ný störf ef af verður. Í fljótu bragði má sjá að þessi nýju störf eru í meiri hluta aðeins ætluð körlum. Jafnréttis\-áætlun verður að virða og það að jafna launamun kynjanna. Þess sjást engin merki í ræðu forsætisráðherra og vekur það furðu.

Ríkisstjórnin virðist vilja hafa öflugt og blómlegt menningarlíf á landsbyggðinni og hefur í því skyni varið einum milljarði til menningarhúsa. Í frumvarpi sem ég mun leggja fram á þessu þingi um viðurkenningu á táknmáli er einmitt fjallað um menningu heyrnarlausra. Það er nauðsynlegt að hefja menningu heyrnarlausra til betri vegar en gert hefur verið. Það hefur nefnilega ekkert verið gert. Ég vil að það verði gert með því að setja á stofn menningarhús heyrnarlausra. Í frumvarpinu um viðurkenningu á táknmáli verður einnig fjallað um að efla táknmálsfræðinám við Háskóla Íslands og síðast en ekki síst að efla rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Menntun, menning og réttindi heyrnarlausra til túlkaþjónustu eru í raun stoðir viðurkenningar á táknmáli. Án þessara þátta er viðurkenningin einskis virði.

Þessi hópur vill að réttindi okkar séu tryggð, og ég leyfi mér að segja réttindi okkar því ég tilheyri einmitt þessum hópi, eins og virðulegur forseti Alþingis hlýtur að sjá því inni í salnum hérna er nú í fyrsta sinn talað táknmál.

Ég ætla mér að knýja fram viðurkenningu á táknmáli. Ég furða mig jafnframt á að forsætisráðherra skuli hafa gleymt að nefna þennan málaflokk í stefnuræðu sinni, sérstaklega í ljósi þess að það var einmitt hann sem nefndi á 128. löggjafarþinginu að viðurkenning á táknmáli væri langtímamarkmið sitt.

Aðgengismál fatlaðra munu fá sína umræðu, sérstaklega fámennasti og sá hópur fatlaðra sem hefur mesta sérstöðu, nefnilega daufblindir, en gera þarf mikið átak í að minna á tilvist þessa hóps. Aðgengi að upplýsingum varðar líka stóran hóp landsmanna og vil ég tryggja þeim sem á þurfa að halda að innlent sjónvarps-, kynningar- og fræðsluefni verði textað sem og íslenskar kvikmyndir.

Af utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar er það að segja enn og aftur að hrikaleg mistök voru gerð þegar ríksstjórnin ákvað að leggjast í eina sæng með upphafsmönnum Íraksstríðsins, Bush og Blair. Eins og gervallur heimurinn hefur horft á hefur þessi ákvörðun gert það að verkum að Íraksstríðið hefur dæmst sem hið versta klúður. Engin gereyðingarvopn hafa fundist þrátt fyrir ítrekuð rök þessara tveggja manna fyrir þeim og jafnvel Saddam sjálfur hefur ekki fundist. Allt er í upplausn í Írak, og Bandaríkjamenn vilja ráða lögum og lofum í landinu þvert á vilja íbúa landsins. Ákvörðun stjórnarflokkanna hér á landi að vera meðal þeirra þjóða sem titluðust bandamenn Bush og Blairs ber því að harma. --- Góðar stundir.