Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 2003, kl. 21:44:46 (26)

2003-10-02 21:44:46# 130. lþ. 2.1 fundur 37#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, AKG
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 130. lþ.

[21:44]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Góðir Íslendingar. Fjárlaganefnd Alþingis var nýlega á ferð á Austurlandi. Hvaða skoðun sem hafa má á virkjunum eða álverum var ekki annað hægt en að hrífast með þeim Austfirðingum sem loksins, eftir margsvikin loforð um aðgerðir í atvinnumálum, sjá fram á breytingu á atvinnulífi svæðisins og fjölgun íbúa. Þar er bjartsýni áberandi hjá flestum. Hjá flestum, segi ég, því að á Austfjörðum og víðar líður fiskverkafólk, sjómenn og sauðfjárbændur, fyrir ranglát og handónýt kerfi. Í fyrra tilfellinu er það fiskveiðistjórnarkerfið sem gerir það að verkum að stórfyrirtæki í Reykjavík ræður hvar fiskur er unninn og setur þar með framfærslu íbúa sjávarbyggða í algjöra óvissu frá degi til dags. Í seinna tilfellinu er um að ræða kerfi sem notar evrópskar og bandarískar reglur sem stjórntæki í íslenskum landbúnaði, reglur sem Bandaríkjamenn og Evrópusambandið setja í því skyni einu að hindra innflutning erlendra matvæla á viðkomandi markaðssvæði.

Íslenskir sauðfjárbændur eiga í erfiðleikum sem m.a. má rekja til krafna stjórnvalda um vottun sláturhúsa fyrir útflutning með tilheyrandi kostnaði. Ætli íslenskir neytendur hafi verið að gera auknar kröfur, að þeim hafi ekki fundist hreinleiki og hollusta búvara --- eins og hæstv. forsrh. orðar það í stefnuræðu sinni --- fullnægjandi? Nei, hreint ekki. Við sættum okkur fullkomlega við álíka kröfur og íbúar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gera til eigin sláturhúsa en þær eru á engan hátt sambærilegar við þær kröfur sem gerðar eru til íslenskra sláturhúsa. Reglurnar sem þeir setja innflytjendum eru settar til að vernda þeirra eigin markaði og einskis annars. En íslensk stjórnvöld virðast nota þær til að fækka sláturhúsum og bændum.

Síðasti búvörusamningur við bændur skyldaði þá til að flytja út 30% af framleiðslu sinni eða taka á sig skerðingu á greiðslumarki ella. Þetta leggur bændum á herðar að flytja sláturfé sitt um landið þvert og endilangt með tilheyrandi kostnaði í eitt þeirra sex sláturhúsa sem hafa útflutningsleyfi. Ekkert þeirra er á Austurlandi, ekkert á Vestfjörðum, ekkert á Vesturlandi en fjögur á Norðurlandi.

Útflutningsskyldan kemur sérstaklega hart niður á smærri bændum en þeir eru langfjölmennastir í hópi sauðfjárbænda á Íslandi. Hún þýðir enn frekari kjaraskerðingu fyrir bændur þar sem verð fyrir útflutt kjöt er mun lægra en á innanlandsmarkaði. Ég spyr mig hvort með útflutningsskyldunni hafi beinlínis átt að neyða smærri bændur af jörðum sínum og til að hætta búskap. Við skulum þá aðeins líta á hvað það hefði í för með sér fyrir byggðamunstur á Íslandi.

Bændur eru kjarninn í því öryggisneti sem við Íslendingar eigum í krafti samfelldrar byggðar um meginhluta landsins. Það er hins vegar í stórhættu. Ef búseta raskast frekar er mikil hætta á að það hafi í för með sér hrun á stórum svæðum landsins. Dalirnir, Húnavatnssýslur, Þingeyjarsýslur, sveitir Austurlands og áfram mætti telja, væru í stórhættu og ekki einungis sveitirnar heldur einnig þorpin sem byggja tilvist sína á þjónustu við bændur. Úrvinnsluiðnaður, skólar, heilbrigðisþjónusta, allt byggist þetta á að hafa lágmarksfjölda til að þjónusta.

Herra forseti. ,,Það er ekki einkamál bænda að leysa fram úr vandamálum sínum,`` eins og hæstv. landbrh. orðaði það fyrir skemmstu í viðtali, a.m.k. ekki á meðan hann skyldar þá til að setja 30% af framleiðslu sinni á erlendan markað, gerir þeim að flytja búpening til slátrunar um landið þvert og endilangt og færir milliliðum vald til að skerða laun þeirra um allt að 20% með pennastriki. Sauðfjárbændur eru eina stéttin á Íslandi sem í heild má segja að sé fátæk. Það er á ábyrgð okkar að breyta þeirri staðreynd.

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að enn einu sinni skuli ekki minnst einu orði á byggðamál í stefnuræðu hæstv. forsrh. Þetta er ríkisstjórn ójafnaðar eins og lýsir sér vel í því að einu skattalækkanirnar sem þeir muna að þeir lofuðu fyrir kosningar er lækkun á hátekjuskatti. Helstu sparnaðaraðgerðir þeirra felast í sviknum loforðum um samgöngubætur á landsbyggðinni.

Nútímabyggðastefna felst í frelsi til athafna, stuðningi við framfarir og nýsköpun með eflingu menntunar og fjármunum til atvinnuþróunar. Það ásamt samgöngubótum eru lykilorð í byggðapólitík Samfylkingarinnar. --- Góðar stundir.