Hundrað ár frá undirskrift laga um heimastjórn

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 10:30:00 (30)

2003-10-03 10:30:00# 130. lþ. 3.92 fundur 40#B Hundrað ár frá undirskrift laga um heimastjórn#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[10:30]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil geta þess að í dag, 3. október, eru liðin 100 ár síðan Kristján konungur IX. undirskrifaði stjórnarskipunarlög þau um breyting á stjórnarskrá Íslands er færðu landsmönnum heimastjórn og innlendan ráðherra með búsetu á Íslandi. Konungur hafði lagt fyrir Alþingi stjórnskipunarfrumvarp um þetta efni á aukaþingi 1902 og frv. var síðan endurstaðfest af þinginu ári síðar, sumarið 1903. Með undirskrift konungs lauk merkum áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Deilan um heimastjórnina hafði verið sérstaklega hörð á Íslandi síðustu árin og við starfslok neðri deildar í ágúst 1903 sagði forseti hennar, Klemens Jónsson, að þingið 1903 yrði lengi í minnum haft vegna þess að það hefði borið gæfu til að binda enda á hina ,,langvarandi, æsandi og jafnvel hatursfullu innanlandsstyrjöld um fyrirkomulag hinnar æðstu stjórnar þessa lands`` svo að vitnað sé orðrétt í ræðu hans. Með þessu var þingforseti að vísa til þeirra hörðu stjórnmálaátaka sem verið höfðu milli stuðningsmanna valtýskunnar og heimastjórnarmanna.

Eins og ég nefndi við þingsetningu sl. miðvikudag tók fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, við embætti 1. febrúar 1904 og markar skipan hans um leið upphaf þingræðis á Íslandi, enda var hann skipaður í samræmi við vilja meiri hluta Alþingis.