Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:03:44 (34)

2003-10-03 11:03:44# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. flutti svipaða ræðu nú og oft áður þegar fjárlög hafa verið lögð fram. Hæstv. ráðherra er býsna ánægður með stöðuna, hann er ánægður með frumvarpið og það verður auðvitað að segjast um þetta frv. eins og áður hefur verið sagt um fjárlagafrumvörpin að markmið þeirra eru oft góð. En því miður hefur raunveruleikinn stundum orðið annar en fjárlagafrv. hefur gert ráð fyrir.

Herra forseti. Í máli hæstv. fjmrh. kom fram að gert er ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs muni lækka að raungildi árið 2004. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvað það er í forsendum þessara fjárlaga sem eykur líkurnar á því að betur takist til á næsta ári en mörg undanfarin ár.

Einnig er nauðsynlegt, herra forseti, að spyrja hæstv. fjmrh. annarrar spurningar strax í upphafi þessara umræðna vegna þess að í aðdraganda kosninga í vor var eitt meginloforð ríkisstjórnarflokkanna að lækka skatta. Nú kemur fyrsta frv. ríkisstjórnarinnar fram á kjörtímabilinu og þá er formerkið öfugt, þ.e. samkvæmt frv. verða skattar hækkaðir. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari þeirri spurningu: Hvað hefur breyst í forsendunum frá því í vor sem orsakar það að nú þarf að sigla inn í næsta ár með skattahækkanir en ekki skattalækkanir?