Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:07:45 (36)

2003-10-03 11:07:45# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:07]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þær tillögur sem hér liggja fyrir um sparnað munu væntanlega ná fram ef þeim verður fylgt eftir. Þannig hefur það verið mörg undanfarin ár að vissulega hefðu útgjöld ríkissjóðs orðið miklum mun minni ef fjárlögum hefði verið fylgt eftir og ef, eins og hæstv. fjmrh. benti á, reglugerð um framkvæmd fjárlaga hefði verið fylgt eftir.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra enn á ný: Megum við búast við að annar háttur verði hafður á varðandi reglugerð um framkvæmd fjárlaga en verið hefur undanfarin ár? Eru meiri líkur á að á árinu 2004 verði farið eftir fjárlögum? Eru meiri líkur á því en verið hefur undanfarin ár?

Varðandi seinni spurninguna er það alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að í aðdraganda kosninga sögðu menn ekki að allar skattalækkanir ættu að koma fram árið 2004, enda hélt ég því ekki fram í fyrri ræðu minni. Hins vegar man ég ekki eftir því að í kosningabaráttunni hafi verið talað um það að byrjað yrði á því að hækka skatta, upphaf skattalækkananna yrðu skattahækkanir. Ég kannast ekki við þann málflutning. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra hvað hefði breyst og, herra forseti, ég verð að endurtaka þá spurningu mína. Hvað hefur breyst sem hefur orsakað það að í stað þess að lækka skatta eða stíga fyrsta skrefið í þá átt, þá er niðurstaða ríkisstjórnarinnar sú að hækka þurfi skatta?