Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 11:11:30 (38)

2003-10-03 11:11:30# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[11:11]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir fjárlagafrv. og í sjálfu sér er fátt nýtt í því hvað varðar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er í sama dúr og verið hefur undanfarin ár. Það byggir hægt og bítandi á einkavæðingu almannaþjónustunnar, sölu ríkisfyrirtækja og þjónustustofnana. Þetta er allt kunnugt.

Hæstv. ráðherra vakti rækilega athygli á því að enn á að draga úr hlutfallslegum þætti samneyslunnar í landinu, en samneyslan er það sem stendur undir samhjálp og félagshyggju í landinu, menntamálum, heilbrigðismálum, öldrunarmálum, hjúkrunarmálum o.s.frv. Það á að draga hlutfallslega úr því á næstu árum. Einn liður í því er að á næsta ári á að innheimta aukin komugjöld á heilsugæslustöðvar, 40--50 millj. kr., er þar sagt. Allt munar það fólk um sem sækir heilsugæslustöðvar.

Í stjórnarsáttmálanum stendur aftur á móti, með leyfi forseta:

,,Efla þarf heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar í landinu.``

Er það mat ráðherrans að það sé liður í því að efla stöðu heilsugæslunnar að auka og hækka komugjöld þeirra sem þurfa að sækja slíka þjónustu? Segja má, virðulegi forseti, að þessi hækkun sé svona einkunnarorð eða marki þá vegferð sem ríkisstjórnin er að fara.