Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:13:00 (53)

2003-10-03 12:13:00# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom í andsvar við mig og spurði spurninga. Ég verð að segja að mér finnst framlag hans í andsvarinu mjög líkt því sem oft er hjá hv. þm. að hann einfaldar málin og jafnvel snýr þeim á haus.

Fyrir löngu var mörkuð sú stefna að sjúklingar sem sækja þjónustu á heilsugæslu greiði ákveðið gjald fyrir og sú umræða hefur oft farið fram á hv. Alþingi. Komugjaldið var 700 kr. fyrir nokkrum árum, var lækkað niður í 500 og nú er gerð tillaga um að hækka það um 100 kr. á ný. Ég tel að þetta samrýmist þeirri stefnu sem ríkt hefur hér undanfarin ár og þær tekjur sem koma af komugjöldum fara auðvitað til þess að efla heilsugæsluna. Það er ljóst. Þessi breyting er gerð til þess að afla fjár til að efla heilsugæsluna sem hornstein og grunneiningu heilbrigðisþjónustunnar. Ég svara því fyrirspurn hv. þm. þannig að þetta samræmist og er í samræmi við þá stefnu sem ríkt hefur.