Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:35:02 (57)

2003-10-03 12:35:02# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan og sumir fjölmiðlar hafa sett upp mikinn kór sem reyndar syngur mjög fölskum tónum og fjallar um það að stjórnarflokkarnir séu að svíkja loforð. Hér fór hv. þm. yfir það að stjórnarflokkarnir væru að svíkja loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar varðandi skattalækkanir. Ég vil mótmæla þessu og bendi á að í fjárlagafrv. og fylgigögnum þess, m.a. í þjóðhagsáætlun sem kemur fram hér, er fjallað um að á síðari hluta kjörtímabilsins verði farið út í lækkun á tekjuskatti. Og ég minni á það að við framsóknarmenn sögðum fyrir kosningar að við teldum að fram undan mundi skapast svigrúm til skattalækkana og við lögðum á það áherslu að á síðari hluta kjörtímabilsins yrði farið í þessar aðgerðir. Það er nákvæmlega það sem kemur hér fram í þeim gögnum sem ég hef vitnað í og það er nákvæmlega það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Ég vil biðja hv. þingmann og fleiri sem hafa tekið undir þennan falska kórsöng að láta nú af honum því að það er stundum betra að þegja en að syngja falskt.