Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:41:17 (61)

2003-10-03 12:41:17# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fjárlögin hverju sinni eru tæki ríkisvaldsins til þess að hafa áhrif á þróun efnahagsmála og mynda ramma um verkefni ríkisins. Ríkið er langstærsti vinnuveitandinn og ákveður með áherslum fjárlaga sem samþykkt eru á Alþingi hvaða línur eru lagðar í einstökum málaflokkum. Fjárlögin hverju sinni marka þann farveg sem við veitum og viljum veita í þjónustu við og fyrir fólkið í landinu.

Heilbrigðis-, trygginga- og menntamál eru veigamestu þjónustuþættirnir sem ríkið veitir fólkinu beint og einnig sú þjónusta sem allir landsmenn njóta beint og persónulega. Þessa þjónustu veita síðan starfsmenn heilbrigðisstofnana og í öldrunarþjónustu, hjá Tryggingastofnun og í skólunum. Við gerum kröfu um að heilbrigðis- og velferðarþjónustunni sé vel sinnt og að hún samræmist því sem við viljum að standi undir því að við getum sagt að við lifum í velferðarþjóðfélagi.

Heilbrigðisþjónustan er dýr og það er farið verulega fram úr fjárlögum mörg ár í röð. Það má vissulega gagnrýna og þá má einnig spyrja hvort sameining ríkisspítala hafi verið rétt leið til betri reksturs eins og að var stefnt. Það er auðvitað auðvelt að vera í gagnrýnishlutverkinu og bölsótast yfir framúrkeyrslu á sjúkrastofnunum en við viljum fá góða þjónustu. Að sjálfsögðu þarf aðhald og eftirlit með opinberum rekstri en við í Frjálslynda flokknum viljum að veitt sé góð þjónusta og munum þess vegna ekki vera í hörðu hlutverki gagnrýnenda að þessu leyti. Ef góð þjónusta á heilbrigðisstofnunum þarf meira fjármagn verðum við að horfast í augu við það. En skilgreina verður vandamálið og vinna sig út frá því og ná betri nýtingu fjármuna án þess að dregið verði úr þjónustu við sjúkt og lasburða fólk í landinu.

[12:45]

Málefni geðfatlaðra hafa enn einu sinni verið efst á baugi í fréttum vegna þeirrar ákvörðunar heilbr.- og trmrn. að hafna áframhaldandi þátttöku í þjónustusamningi ráðuneytis og Geðhjálpar. Fulltrúar ráðuneytisins hafa sagt tæknilega örðugleika standa í vegi fyrir því að hægt sé að framkvæma þjónustusamninginn. Einnig má minna á að haustið 2002 gaf heilbrrh. Geðhjálp loforð um lokaða geðdeild fyrir veikustu einstaklingana. Samkvæmt ályktun stjórnar Geðhjálpar frá 21. september sl. bólar ekkert á efndum þótt þörfin fyrir veitta þjónustu við alvarlega geðsjúka einstaklinga sé brýn.

Ef heilbrrh. vildi upplýsa um þessi mál væri það vel þegið. Ríkisstjórnin stefnir að því að sveitarfélögin muni senn taka við rekstri heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar. Þá kemur auðvitað spurningin: Hver á að borga fyrir þá þjónustu sem brýnt er að veita? Vandi sveitarfélaga í landinu er þegar mikill. Tekjur sveitarfélaganna duga víða ekki til reksturs núverandi verkefna. Grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna. Hann hefur reynst þeim dýrari en gert var ráð fyrir og víða hafa síðan tekjur í sveitarfélögunum dregist saman. Það er því nauðsynlegt áður en menn ganga til þeirra verka að færa fleiri verkefni til sveitarfélaganna, eins og heilbrigðis- og öldrunarþjónustuna sem vissulega kunna að vera verkefni sem sveitarfélögin geta tekið við, að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði skilgreind upp á nýtt. Frekari verkefni verða ekki færð til sveitarfélaganna svo vel sé nema það sé gert og að nýir tekjustofnar verði markaðir fyrir sveitarfélögin. Ef þannig væri að verki staðið væri sjálfsagt að færa þessi verkefni með samningnum við sveitarfélögin til þeirra en það þarf að gæta þess að rekstri sveitarfélaganna sé ekki stefnt í voða, að ríkið sýni hagnað í fjárlögum sínum og afkomu en ekki á kostnað sveitarfélaganna í landinu.

Ríkið hefur nú að langmestu leyti dregið sig út úr almennri bankastarfsemi með sölu á ríkisbönkum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka. Sú dreifða eignaraðild sem lagt var upp með af hæstv. forsrh. gekk ekki eftir, því miður verð ég að segja, enda var stuðningur okkar í Frjálslynda flokknum við sölu ríkisbankanna háður þeirri málsmeðferð. Þær miklu sviptingar sem nú hafa orðið í íslensku viðskiptalífi koma mörgum á óvart. Spurningar vakna um hvort viðskiptabankar eigi að stýra því fjárfestingarferli og þeim miklu umskiptum sem hér hafa orðið á undanförnum vikum. Hvort ferlið undanfarnar vikur verði þjóðinni almennt til góðs skal ósagt látið, enda sá sem hér talar enginn sérfræðingur í því hvernig eignarhaldi einstakra fyrirtækja skuli háttað. Við því skal þó varað, sérstaklega í litlu landi eins og okkar, að blokkamyndun verði ríkjandi form í stærstum hluta atvinnulífsins þar sem hver eigi annan og fámennur hópur manna ráði í raun mestu um atvinnu- og fjármagnsmarkaðinn.

Ríkisstjórnin hefur hugsað sér að beita aðhaldi til þess að lækka útgjöld ríkissjóðs um 500 millj. með því að hverfa frá endurgreiðsluhluta af tryggingagjaldi atvinnurekenda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar launþega. Þetta kemur til með að bitna hart á minni fyrirtækjum og það er vissulega áhyggjuefni. Kosningaloforð stjórnarflokkanna minnir mig að hafi gengið í aðra átt því báðir flokkarnir töldu mikilvægt að efla vöxt smærri fyrirtækja. Þau kosningaloforð eru kannski gleymd nú.

Það á einnig að spara með því að lækka sjúkratryggingar um 740 millj. og þar er einkum vitnað til niðurskurðar í lyfjakostnaði, hjálpartækjum og sérfræðiaðstoð. Það væri auðvitað fróðlegt að heyra nánari útlistun á þessum niðurskurði, t.d. frá hæstv. fjmrh. eða þá frá heilbrrh. ef hann heyrir hér mál mitt. Þarna er varla verið að leita að breiðu bökunum í þjóðfélaginu, eða hvað? Ég er ekki viss um að þjóðin almennt sé sátt við að fara í þann niðurskurð sem þarna er boðaður.

Einnig er gert ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki um 170 millj. kr. þar sem lagt er til að í stað þess að bætur reiknist frá fyrsta skráningardegi verði ekki greitt fyrir fyrstu þrjá dagana. Þetta atriði kann að koma illa við launafólk og mjög víða við rekstur smærri fyrirtækja, einkum í fiskvinnslunni geri ég ráð fyrir. Það getur verið mjög varasamt að fara þá leið sem þarna er lögð upp.

Síðan er hér uppástunga um að vaxtabætur lækki um 600 millj. með því að hámark vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta miðist við 5,5% af skuldum í stað 7% sem nú er. Ég vona að þessi upptalning sé ekki vísun á það sem ríkisstjórnarflokkarnir álíta að séu breiðu bökin í landinu og færust um að taka á sig niðurskurðinn.

Mig langar að víkja að öðru máli, hæstv. forseti. Fíkniefnavandinn hefur á undanförnum árum verið að teygja sig til æ yngri ungmenna, því miður. Því er nauðsynlegt að fræða börn og unglinga um skaðsemi fíkniefna. Á fíkniefnavandanum er líka önnur hlið og það er vandinn sem snýr að hörðum neytendum, þeim sem komnir eru á kaf í fíkniefni og gera nánast allt til að ná sér í það eitur sem þeir hafa svo mikla þörf fyrir. Þeir verða óviðráðanlegir og þeir verða sjúkir afbrotamenn vegna fíknar sinnar. Það er mjög brýnt að koma til móts við vanda þessa fólks því að það getur varla gengið laust í þjóðfélaginu og þarf sannarlega á sérhæfðri aðstoð að halda. Ef einhvers staðar í fjárlagafrv. er að finna tillögur um að efla hér vistun að þessu leyti og endurhæfingu þætti mér gott og vænt um ef mér yrði bent á það.

Skattstefna núverandi ríkisstjórnar gengur í þá veru að nú er lagt upp með lækkunarferli fyrst og fremst í hátekjuskattinum. Það verður að segjast alveg eins og er að slík stefnumótun er ekki sú sem við værum tilbúin að styðja í Frjálslynda flokknum. Við hefðum talið að ef leggja ætti af stað með skattalækkanir hefði átt að byrja á að horfa til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og til barnafjölskyldnanna. Það var sú stefnumótun sem við lögðum fram til þjóðarinnar í kosningabaráttunni og bentum á að þar teldum við brýnasta þörfina og þar ætti að byrja. Þar af leiðandi er það alveg ljóst að við í Frjálslynda flokknum erum algerlega andvíg því uppleggi sem lagt er af stað með í skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar, að telja að það sé mest nauðsyn að taka á því sem fyrst að afnema hátekjuskattinn. Þar teljum við farið öfugt í málin. Og þeim 20 milljörðum sem ríkisstjórnin hyggst nota til skattalækkana á kjörtímabilinu væri betur varið annars staðar en þarna.

Ég vil líka lýsa þeim áhyggjum mínum, herra forseti, að þær miklu framkvæmdir sem boðaðar eru í landinu og eiga að valda þensluáhrifum, m.a. í þjóðfélaginu, en eiga einnig vissulega að auka atvinnu mjög víða um landið og bæta kaupmátt muni ekki koma öllu landinu til góða. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna norðvesturhluta landsins. Ég hef miklar áhyggjur af því að það svæði sitji eftir meðan annars staðar er mikið um að vera og mikil atvinnustarfsemi og talsvert í að sækja fyrir fólk sem á annað borð getur flutt sig til. Og við þurfum á allt öðru að halda í norðvesturhluta landsins en því að það sé ýtt undir fólksflutning af því svæði. Þess vegna vil ég vekja á þessu sérstaka athygli. Ég tel að það þurfi að horfa sérstaklega á þetta svæði á þeim tíma sem mestar framkvæmdir verða hér á landi, að það sitji ekki eftir og þar sjái fólk þann kost bestan að flytja sig til vegna þess að miklu betri atvinna og meiri atvinna bjóðist á öðrum stöðum landsins. Að sjálfsögðu er það þannig að þegar framkvæmdir eru miklar á landi hér í einhverjum landshluta er það innbyggt að suðvesturhornið og Reykjavíkursvæðið nýtur alltaf þeirrar uppsveiflu.

Það hefur verið viðvarandi fólksflótti af landsbyggðinni, því miður, til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum. Ég býst við að þær aðgerðir í atvinnumálum sem núna er staðið að með virkjunaráformum við Kárahnjúka og síðar álveri á Reyðarfirði muni draga fólk til austurhluta landsins og þar muni fjölga á ný. Það tel ég mjög gott fyrir þann landshluta, og mjög góða þróun í raun og veru ef við getum sýnt fram á að fólk sé tilbúið að flytja út á land þegar --- hvað? --- þegar atvinna og tekjur standa til boða. Það er einmitt það sem ég er að gera að umræðuefni, herra forseti, að tekjurnar og atvinnan þurfi að vera til staðar til þess að góðu mannlífi sé viðhaldið. Þess vegna dreg ég þetta inn með þessum hætti. Ég hef áhyggjur af norðvesturhluta landsins í þessu sambandi.

Það var boðað í stefnuræðu forsrh. að til stæði að efla Landhelgisgæsluna. Ég held að þá hefði það átt að endurspeglast einnig í fjárlagafrv. og í gegnum fjárlög. Mig langar í því tilliti til að víkja að einu atriði og það er að sagt hefur verið að það þyrfti að selja varðskipið Óðin og að þeir fjármunir yrðu m.a. notaðir til þess að byggja nýtt skip. Ég tel að ekki muni miklir fjármunir koma í ríkiskassann við söluna á Óðni. En þetta er hins vegar skip sem á sér mjög merka sögu, er alveg í þokkalegu lagi og væri verðugt verkefni að athuga hvort ekki ætti að varðveita þetta skip hér á landi í því standi sem það er og t.d. koma þar upp sérstöku safni um sögu Landhelgisgæslunnar við gæslustörf hér við land. Ég tel að þeir fjármunir sem munu fást fyrir að selja þetta skip séu ekki það miklir að þeir skipti neinum sköpum fyrir okkur í rekstri ríkisins. Hins vegar held ég að það að eiga skipið og gera það að ákeðnu sögusafni geti orðið okkur mjög mikils virði og jafnvel fært okkur tekjur í gegnum ferðamennsku í framtíðinni. Ég sé ekki að menn bæti mikið hag ríkissjóðs með því að selja Óðin.

Það hefur komið fram að til stæði að selja Landssímann og að menn hefðu tekið skynsamlega ákvörðun með því að fresta því á sínum tíma að selja hann. Ég er kominn á þá skoðun að það hafi verið mjög skynsamlegt að fresta sölu Landssímans og það eigi helst að hætta við þessa sölu. Það er alveg ljóst orðið í mínum huga að dreifikerfið og þjónustan við dreifðar byggðir í þessu landi verður ekki góð nema því aðeins að við eigum dreifikerfið sjálf og getum sjálf ákveðið hvaða möguleikum við viljum halda uppi í gegnum fjarsímakerfið og símakerfið. Það hefur þegar komið í ljós við einkavæðinguna að Landssíminn eins og hann er nú rekinn hefur engan áhuga á því að auka þjónustuna úti um landið, t.d. varðandi GSM-kerfið, enda telja símafyrirtækin að GSM-kerfið nái núna almennt til 90% íbúa á svæðum, jafnvel yfir 98% íbúanna. Þó að GSM-síminn sé ekki skilgreindur sem öryggistæki trúa því flestir sem nota GSM-símann, einkum yngra fólk, að hann sé mikið öryggistæki og að menn geti lagt á fjöll með GSM-símann sinn og haft samband til byggða. Ég held að það verði ekkert undan því vikist að bæta dreifikerfið og ég sé ekki fyrir mér að einkareknu fyrirtækin geri það. Þau eru fyrst og fremst að horfa á tekjuhliðina og telja e.t.v. ekki eftir miklu að slægjast í þessu öryggishlutverki. Ég held að það verði að vera okkar og ríkisins að sjá til þess að slíkt sé til staðar. Þess vegna geld ég mjög mikinn varhuga við því hvernig við munum selja Landssímann og hvernig eigi að standa að málum að því er varðar öryggisþáttinn í framtíðinni.

Einnig er vikið að því að það eigi að einkavæða Siglingastofnun ríkisins. Ég er ekki hrifinn af þeirri hugmynd og tel að þau mál þurfi að skoða mjög vandlega áður en við stígum þau skref. Við höfum einkavætt bankana, jú, en ríkið rekur þó áfram nokkra lánastarfsemi í gegnum t.d. Byggðastofnun og í gegnum Nýsköpunarsjóð. Ég held að ég hafi séð það í fréttum fyrir örfáum dögum að Nýsköpunarsjóðurinn búi við fjársvelti og muni ekki geta sinnt hlutverki sínu á næstu árum. Auðvitað væri fróðlegt að fá það upplýst hér í umræðunni af hæstv. fjmrh. með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar í raun að efla Nýsköpunarsjóðinn þannig að hann þjóni þeim verkefnum og því hlutverki að vera innkomuaðili við að styrkja ný og verðug verkefni og atvinnuuppbyggingu hér á landi.