Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 13:52:03 (65)

2003-10-03 13:52:03# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þóttist vita að hv. þm. hefði átt eftir einhverja kafla í ræðu sinni og þess vegna eðlilegt að gefa honum hér tækifæri til að bæta örlítið úr. Hann endaði andsvar sitt á því að segja að það væru ýmsar aðrar leiðir en einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, og það væri fróðlegt að fá að heyra hvaða fleiri leiðir það eru, vegna þess að auðvitað hefur á stundum verið tekist nokkuð á um það hvernig eigi að breyta rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu og menn hafa verið að nota mismunandi orð í því samhengi, ýmist einkarekstur eða einkavæðingu. Ég vil spyrja hv. þm. hvernig hann skilur orðið einkavæðingu, sérstaklega í tilefni af því að hæstv. heilbrrh. gengur nú í salinn, því að á vordögum þegar við vorum í kosningabaráttu í Norðaust. þá var m.a. rætt um heilbrigðismál. Þá sagði hæstv. heilbrrh. að það væri rangt að ríkisstjórnin vildi einkavæða í heilbrigðiskerfinu, það væri rangt. Það væri hins vegar rétt að Sjálfstfl. vildi það, en hann þyrfti að standa á bremsunni hvern einasta dag til að koma í veg fyrir slíkt.

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fá að heyra hvernig hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson skilur orðið einkavæðingu.