Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 13:53:25 (66)

2003-10-03 13:53:25# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í Evrópu hafa um langan aldur engar deilur verið um þessi grundvallaratriði. Á Íslandi hafa aldrei verið deilur um þetta. Bæði svokallaðir vinstri menn og svokallaðir hægri menn hafa alltaf undir öllum kringumstæðum staðið saman að því að við ættum að stærstum hluta að reka heilbrigðisþjónustuna undir samhjálp, aldrei hefur verið deilt um það. Sá franski sem ég vísaði í áðan, hann var mjög harður á þessu. Auðvitað ætti þetta að vera undir formerkjum samhjálpar þó að hann væri að setja þetta í einkarekstur.

Sú mæta hægri stjórnmálakona Margrét Thatcher hefur skrifað mjög margar ritgerðir og haldið mjög margar ræður um heilbrigðismál. Rauður þráður í gegnum allt hennar tal og allar ritgerðir hennar er að heilbrigðismál séu ,,non-profit business``, alltaf, alls staðar. Það hefur enginn deilt um þetta á Íslandi, aldrei.

Að setja einhverjar stofnanir, heilbrigðisstofnanir, í einkarekstur er bara aðferð til að reyna að finna út hagkvæmni í rekstri. Það er ekki á nokkurn hátt verið að hverfa frá þeim samhjálparhugmyndum og -vitund sem við ætlum öll að standa að. Alltaf og alls staðar hefur það verið þannig. Alltaf.

Gagnvart ýmsum ráðum sem til eru í heilbrigðismálum þá skal ég vekja athygli hv. þm. á því að Evrópudeild WHO, sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn, hefur núna um nokkurra ára skeið einmitt verið að vinna það verkefni, þ.e. hvernig á að koma í veg fyrir að heilbrigðisþjónustan leiti upp á hátæknina, hvernig á að koma í veg fyrir það. Hvernig getum við haldið sem stærstum hluta af heilbrigðiskostnaðinum niðri í heilsugæslunni? Þetta er stórt verkefni sem við höfum unnið að í mörg ár. Ég held að rétt væri að fjárln. og heilbrn. færu í það í vetur að fá upplýsingar um það starf og reyna að átta sig á því, því að það er mikið verk að vinna.