Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:00:07 (69)

2003-10-03 14:00:07# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvelt að tala eins og hv. þm. gerði en reyndin er segir okkur hins vegar annað. Ég veit ekki betur en spá um stýrivexti hljóði upp á að þeir muni hækka verulega á næstu mánuðum og missirum, þvert ofan í það sem hv. þm. segir. Hækkun stýrivaxta mun jafnframt leiða til að gengið mun hækka. Þannig er ástandið sem spáð er á næstu mánuðum og missirum. Ég spyr hv. þm.: Hvers vegna eru þessar staðreyndir bornar á borð í efnahagsforsendum með þessu fjárlagafrumvarpi ef hv. þm. er allt annarrar skoðunar og telur þetta geta farið í þveröfuga átt?

Ég er sammála hv. þm. um að útflutningsatvinnuvegirnir, frumatvinnuvegirnir sem borið hafa uppi atvinnulíf og velferð hér á landi á undanförnum áratugum, eru í vanda. Byggðirnar eru í vanda vegna þessarar stefnu í vaxta- og gengismálum sem er afleiðing af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið í uppbyggingu atvinnulífs.

Ég leyfi mér að ítreka spurningu mína, virðulegi forseti: Hvað á að gera annað? Hvernig ætlar hv. þm. að taka á Seðlabankanum þannig að hann lækki raunvexti en spái ekki hækkun raunvaxta, sem hann mun væntanlega standa við?