Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:01:53 (70)

2003-10-03 14:01:53# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt í stuttum andsvörum að ræða svo flókna hluti. Hins vegar er það staðreynd sem við skulum taka eftir að markaðsvextir á Íslandi eru víða orðnir lægri en stýrivextir Seðlabankans, sem er dálítið skondið. Ég hef áður gagnrýnt þá peningapólitík sem rekin er af Seðlabankanum úr þessum ræðustól. Ég hef hætt því seinni árin af því að ég tel það tímasóun. Það er samt ástæða til að velta þessum hlutum fyrir sér.

Ég tel það koma mjög skýrt fram í viðbrögðum mjög margra á peningamarkaði og viðskiptalífinu að þeir fagna þessu fjárlagafrv. og þeirri stefnumörkun sem þar er vegna þess að með því er tóninn gefinn. Þar kemur fram hvað við ætlum að gera. Ríkisstjórnin ætlar sér að verja atvinnulífið. Það hefur alltaf legið fyrir að það er grunnurinn að því sem við erum að gera.

Það getur vel verið að einhver deili við mig um það en ég fullyrði enn og aftur að á Íslandi er í dag grundvöllur fyrir mikla og hraða vaxtalækkun. Það er engin þensla á Íslandi. Það er rangt ef menn segja það. Það er hreinlega rangt. Hér ríkir algjört jafnvægi. Það er engin þensla. Hér er óeðlilega mikið atvinnuleysi, óþarflega mikið atvinnuleysi. Ég tel að menn hafi verið með heilmikinn hræðsluáróður og hann sé allt of snemma á ferðinni. Hin mikla sveifla, hin mikla hætta er ekki fyrr en árið 2006. Það er ekki árið 2006 núna.

Ég ítreka þessa skoðun mína. Ég tel að með þessu frumvarpi sé einmitt að lögð áhersla á að það sé einnig skoðun ríkisstjórnarinnar.