Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:21:18 (75)

2003-10-03 14:21:18# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér orðrétt, með leyfi forseta:

,,Allt það sem við sögðum í skattamálum mun standa.``

Hv. þm. Geir H. Haarde, hæstv. fjmrh., og Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sögðu um skattamálin að hinn sérstaki tekjuskattur mundi falla niður um áramót, sögðu einfaldlega að hann mundi falla niður um áramótin. Hvar eru þær efndir ef allt sem þið sögðuð í skattamálum mun standa, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson?

Hæstv. forsrh. sagði, og ég skil ekkert í fréttastofu ríkissjónvarpsins að vera ekki búin að spila það fyrir okkur aftur og aftur og aftur og aftur, að hann mundi leggja fram frv. að lögum um skattalækkanir á þessu haustþingi og tímasetja þær nákvæmlega. Ef allt sem þið sögðuð í skattamálum á að standa, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, verðið þið að skila þessu frv. inn, frv. um skattalækkanirnar næstu fjögur árin, og tímasetningunum á þeim eins og lofað var en ekki nota það sem vopn í kjarabaráttu síðar í vetur til þess að knýja launakröfur fólks niður gegn því að þið þá loksins efnið einhvern hluta af loforðum ykkar. Augljóslega ná 20 milljarðar árið 2007 --- jafnvel þótt að veruleika yrðu --- ekki að efna loforð Sjálfstfl. um 28 milljarða í skattalækkunum, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og því öldungis ljóst nú þegar að allt sem þið sögðuð í skattamálum mun ekki standa.