Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:26:51 (78)

2003-10-03 14:26:51# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ef alltaf væri allt upp á við væri þetta kannski allt öðruvísi. En það er bara ekki þannig.

Ég var hins vegar að tala hérna um skattana. Það er öðruvísi í lögunum um bótagreiðslur, bæði almannatrygginga til ellilífeyrisþega og til örorkulífeyrisþega. Þar er undantekningin. Þar segir að fylgja skuli kaupgjaldsvísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvor er hærri. Þannig er gengið frá þessu í lögunum. Örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar munu þannig aldrei lenda í því, þegar niðursveifla er í samfélaginu, að taka á sig skert kjör. Þannig var gengið frá þessu 1997. Og ég veit ekki betur en Ísland sé eina ríkið í heiminum þar sem það er tryggt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar taki ekki þátt í því þegar niðursveifla verður í samfélaginu. Þeirra kjör eru einmitt tryggð í íslenskri löggjöf en ekki í löggjöf annarra þjóða. Þannig er okkar löggjöf fullkomnari og betri en hjá öðrum því að þessa er fullkomlega gætt í lögunum.