Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:50:02 (83)

2003-10-03 14:50:02# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir að sérstöku umtalsefni þá fyrirætlan ríkisstjórnar að lögfesta þriggja daga biðtíma vegna atvinnuleysisbóta og nefnir m.a. það til sögunnar sem hann kallar reyndar rán, þ.e. að verið sé að stela peningum af atvinnulausu fólki upp á 10.722 kr.

Það er rétt að halda því til haga að með þessari breytingu er verið að færa atvinnuleysistryggingakerfi okkar til nokkurs samræmis við það sem gerist á Norðurlöndunum að Danmörku undanskilinni, eins og ég veit að þingmaðurinn veit. Í Noregi og Svíþjóð er þessi biðtími fimm dagar en reyndar sjö í Finnlandi.

Hann nefnir þessa tölu, 10.722 kr. Við erum að tala um þrjá daga af þeim 1.825 dögum sem Íslendingar á atvinnuleysisbótum eiga rétt á. Við erum að tala um 10 þús. kr. af tæpum 4 millj. 647 þús. kr.