Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:51:17 (84)

2003-10-03 14:51:17# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum haldið áfram þessum útreikningum. Við gætum t.d. spurt hvað alþingismenn fá í laun á samsvarandi tíma og hvort við sem hér erum í sal séum reiðubúin til að afsala okkur þriggja daga launum. Erum við reiðubúin til að gera það? Ég held að menn séu almennt ekki reiðubúnir til þess.

En hér erum við að tala um þá aðila í þjóðfélaginu sem hafa minnstar tekjur af öllum. Það eru kaldar kveðjur frá ríkisstjórninni að ráðast sérstaklega á þennan hóp. Ég vil beina spurningu til hæstv. félmrh.: Hver er skýringin á þessu? Telja menn að þetta forði þjóðinni frá atvinnuleysi, fæli fólk frá atvinnuleysi? Telur ríkisstjórnin að fólk ráði einhverju þar um? Það eru örlög fólks, ill örlög að missa atvinnu sína.

Ég óska eftir skýringum á þessu. Mér nægir ekki að heyra að aðrar þjóðir skuli fara fram með þessum hætti. Mér nægir það ekki. Ég vil vita hver skýringin á þessu er. Var það e.t.v. krafa fjmrn. að ráðist yrði á þennan hóp, að atvinnuleysistryggingar yrðu skertar? Hvaðan kemur þessi krafa? Er þetta sprottið innan úr félmrn. Er það stefna Framsfl. að skerða sérstaklega kjör atvinnulausra um rúmar 10 þús. kr.? Ég óska eftir skýringum.