Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:54:38 (87)

2003-10-03 14:54:38# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að töluverðs misskilnings gæti hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þegar hann fer yfir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það er opinber stefna, það er opinbert markmið ríkisstjórnarinnar sem margsinnis hefur verið ítrekað og farið yfir, að núna þegar við eigum von á þessum miklu framkvæmdum eigi ríkið að draga saman sína hluti, eigi að hopa þannig að rými sé fyrir fólk og fyrirtæki, til að koma í veg fyrir að hér myndist ofþensla, til að koma í veg fyrir að útflutningsfyrirtækin lendi á köldum klakanum, til að koma í veg fyrir það mikla atvinnuleysi sem mundi vera því samfara.

Þess vegna er ríkisstjórnin með þessu frv. einmitt að marka þá stefnu að samneyslan skuli ekki aukast nema um 2% að raungildi á ári, þ.e. til þess að rýma fyrir fólkinu. Þetta er stefna okkar. Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson er algjörlega á öndverðum meiði. Það er hans vandamál. En þetta er ekkert launungarmál. Við erum að boða þetta og segja þetta af því að við vitum að þetta er rétt. Við verðum að gera þetta. Þetta er lífsnauðsynlegt. Það er mjög margt í ríkisrekstrinum sem við gætum minnkað og þarf að minnka. Ég hef oft farið yfir það og gæti svo sem tekið eina rispu í því enn þá, herra forseti.

En það kemur líka fram að þegar þessum framkvæmdum lýkur ætlar ríkisstjórnin sér að vera í stakk búin til þess að koma inn með auknum þunga, t.d. í framkvæmdum, gagnvart mjög mörgum þáttum infrastrúktúrsins, og byggja vegi, hús o.s.frv. Hún ætlar að vera reiðubúin til þess að koma þá inn. Þetta er stefnan. Þetta er opinber stefna okkar og við erum sannfærð um að hún sé rétt og bráðnauðsynleg.