Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:21:23 (94)

2003-10-03 15:21:23# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því í dag að hv. þm. Magnús Stefánsson hefur áður komið með þessa athugasemd hér í ræðustól. Það er alveg rétt hjá honum að Framsfl. talaði um það fyrir kosningar að lækka skatta á seinni hluta kjörtímabils og gera það í tengslum við kjarasamninga. En samstarfsflokkurinn gerði það ekki. Samstarfsflokkurinn var með loforð uppi um að lækka skatta mun meira en Framsfl. lofaði. Ég er bara það nýr í þessu og kannski undarlega gerður að mér finnst að þegar menn lofa einhverju þá eigi þeir að standa við það. Menn fá enga syndaaflausn eða syndakvittun bara með því að semja við einhvern annan flokk og segja svo: Ja, ég lofaði þessu, ég veit það, þetta var loforð fyrir kosningar, en nú er það stjórnarsáttmálinn sem gildir, loforðið skiptir engu máli lengur sem ég lofaði fyrir kosningar, það er stjórnarsáttmálinn sem gildir. Með öðrum orðum: Það er þá bara viðtekin venja að eðlileg hegðun sé að lofa og lofa fyrir kosningar og leysa sig svo undan þeim loforðum í einhverjum samningaviðræðum við annan stjórnmálaflokk til að komast í stjórn.

Þetta eru kannski vinnubrögð sem ég á eftir að læra, það getur vel verið, en ég vil taka það fram svo það liggi skýrt fyrir að hv. þm. Magnús Stefánsson lofaði örugglega ekki fyrir kosningar að lækka skatta strax, en hinn (ÖJ: Er ekki betra fyrir þjóðina að Sjálfstæðisflokkurinn svíki loforðin?) hlutinn af ríkisstjórninni gerði það svo sannarlega og það hefur vakið athygli mína reyndar í dag að þeir hafa ekki svarað þegar um þetta hefur verið rætt hér.