Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:24:03 (95)

2003-10-03 15:24:03# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil leggja örfá atriði inn í umræðuna vegna þess að heilbrigðismál hafa nokkuð verið hér til umræðu í dag og þá sérstaklega sá sparnaður eða það aðhald sem er ætlað að hafa í sjúkratryggingum.

Ég vil byrja á að taka fram, eins og ég tók reyndar fram í ræðu minni í gær, að heildarframlög til heilbrigðismála hækka verulega samkvæmt frv., um 9% frá fjárlagafrv. síðasta árs. Þetta eru verulega miklir fjármunir, þar sem heildarútgjöldin til heilbrigðismála eru 110 milljarðar kr., eða um allt að 40% af útgjöldum fjárlaga.

Ég vil taka fram varðandi þá umræðu sem hefur verið í dag að útgjöld til hjálpartækja hækka samkvæmt frv. þrátt fyrir að við ætlum að hafa þar aðhald. Þau hækka um 5% sem er væntanlega raunaukning til þeirra mála. Útgjöld til lyfja hækka einnig samkvæmt frv. vegna verðlagsáhrifa fyrst og fremst um 6,3%, eða um 800 milljónir. Útgjöld til hjálpartækja hækka um 192 milljónir. Við höfum ætlað okkur að skoða hvort við getum lengt tímabilið um úthlutanir á bifreiðum úr fjórum árum upp í sex, það er svipað og er í nágrannalöndunum, og það byggist á því að bílar eru endingargóðir nú til dags og ætlunin er að komast hjá því að mikið viðhald sé á bifreiðum á þessu tímabili og nágrannalöndin hafa farið þessar leiðir. En við erum nýbúin að rýmka úthlutun á bifreiðastyrkjum, þannig að þrátt fyrir þetta hækka útgjöld til þessa málaflokks um 192 millj. kr.

Í sambandi við lyfin hefur örlað á misskilningi í umræðunni og það kann að vera að við höfum ekki orðað þetta nógu greinilega í grg. með frv. en það er engin almenn og gegnumgangandi hækkun fyrirhuguð á þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Við höfum ætlað okkur að endurskoða flokkun á lyfjum, færa einstök lyf á milli flokka. Við höfum verið með starfshóp í tengslum við Landspítalann og Læknafélagið þar sem menn hafa verið að skoða ávísanir á ný og dýr lyf. Þetta er ofurviðkvæmt mál og erfitt og verður ekki unnið nema í nánu samráði við heilbrigðisstéttirnar hvort við förum of hratt í að vísa á ný og mjög dýr lyf ef önnur eru til jafngóð. Þetta höfum við ætlað að skoða og ég og við í heilbrrn. höfum verið í góðu samráði við Læknafélagið um þetta mál og það hefur viljað koma inn í þetta með okkur. En þarna eru miklir fjármunir sem um er að ræða. Hins vegar höfum við þá skyldu að veita sjúklingum þá bestu lækningu sem völ er á. Það er skylda samkvæmt lögum og við verðum auðvitað að uppfylla hana. En við viljum skoða það mjög grannt hvort menn fara of hratt í að ávísa ætíð á ný lyf ef önnur eru til með jafngóða verkun sem eru miklu ódýrari. Við einsetjum okkur að skoða alla þessa þætti. En við erum ekki með neina almenna gegnumgangandi breytingu á kostnaðarþátttöku sjúklinga í huga í þessu sambandi.

[15:30]

Síðan er eitt til viðbótar sem þarf að skoða: Erum við með of strangar reglur um innflutning lyfja? Er t.d. þörf á því á spítölum að öllum lyfjum fylgi notkunarseðill á íslensku? Það er eitt sem við þurfum að skoða, lyf sem gefin eru á sjúkrahúsum, þó að sjálfsögðu þurfi slíkur seðill að fylgja lyfjum til almennrar notkunar. Þessu vildi ég koma að til skýringar. En allt þetta, öll þessi vinna er til þess að reyna að halda eitthvað í við lyfjakostnaðinn sem hefur því miður vaxið mjög mikið og vex um 800 millj. á næsta ári samkvæmt áætlun frv., þrátt fyrir að við ætlum að veita aðhald um 450 millj.

Varðandi komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar þá vil ég taka það fram og það má ekki gleymast í þessu sambandi að komugjöld á heilsugæslustöðvar árið 1999, ef ég man rétt, voru 850 kr., verða núna 600 kr. eftir hækkunina. En við megum ekki gleyma því heldur að það gilda sérstakir taxtar fyrir öryrkja, aldrað fólk og börn varðandi komugjöldin og það sama má segja um sérfræðingana.

Síðan er eitt mál sem ég hefði talið fulla þörf á að kynna betur og það er að fólk með lágar tekjur getur sótt um endurgreiðslu á sjúkrakostnaði til Tryggingastofnunar samkvæmt reglugerð sem út hefur verið gefin um það. Ég hef rætt um að það þurfi að kynna þetta betur og halda þessu betur á lofti því það á að vera öryggisnet fyrir þá sem hafa lágar tekjur.

Hér hefur verið rætt um einkarekstur heilbrigðisþjónustu og einkavæðingu og ég hef gert skýran greinarmun þar á. Við höfum nýtt einkarekstur í mörgum greinum heilbrigðisþjónustu, t.d. í öldrunarmálunum. Við höfum gert tilraun með að bjóða út rekstur einnar heilsugæslustöðvar. Það skiptir ekki máli fyrir notendur þjónustunnar, komugjöldin eru þau sömu þar eins og annars staðar, greidd af ríkisvaldinu. Við fengum tilboð í þann rekstur frá ágætu fólki og það verður fróðlegt að vita hvernig sú starfsemi fer, en það er í Salahverfinu í Kópavogi. Þar erum við að feta okkur inn á nýja braut en þetta er ekki einkavæðing, ríkið greiðir þessa þjónustu og það skiptir ekki máli fyrir notandann hvernig hún er veitt. Þetta er gert í tilraunaskyni, en þarna vil ég gera skýran greinarmun á. Einkavæðing er það ef allt er sett út á markað og bara framboð og eftirspurn ræður og sjúklingarnir borga. Þá eru menn komnir út í einkavæðingu.

Ég hef viljað að heilbrigðiskerfið sé aðgengilegt fyrir alla og að við höfum eitt kerfi. Það hefur verið mitt markmið. Ég hef ekki orðið var við annað en að það sé bærilegt samkomulag um það, þó að allir viti auðvitað hvernig umræðan hefur verið í þessu efni, það bryddar alltaf á þeirri umræðu að það þurfi að einkavæða meira og það sé lausnin. En ég held að það sé þrátt fyrir allt nokkuð góð samstaða um að heilbrigðisþjónustan sé rekin af skatttekjum að miklu leyti, þó að hluti af okkar heilbrigðiskerfi sé rekinn af gjöldum notenda. Það er staðreynd. En þar sem menn hafa gengið lengst í einkavæðingu eins og í Bandaríkjunum, þar er heilbrigðisþjónustan langsamlega dýrust, það sýna tölur OECD. Þau eyða langmestum fjármunum til þessarar þjónustu.