Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:47:47 (101)

2003-10-03 15:47:47# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt dálítið hugsi á þá umræðu sem hefur farið fram hér í dag. Menn hafa mikið talað um þá ábyrgð sem þeir bæru á festu í fjármálastjórn í þessu landi en síðan hafa kannski þeir sömu og reyndar líka aðrir staðið hér í ræðustólnum og lýst því yfir að það stæði til að lækka skatta á þessu kjörtímabili og það ekkert lítið.

Ég verð að segja eins og er að ég tel að þeir sem lýsa því yfir að þeir hafi það hæst uppi að sýna ábyrgð í stjórn landsins og fjármálum þess og lýsa því síðan yfir að þeir ætli að lækka skatta á þessu kjörtímabili svona mikið geti ekki efnt hvort tveggja. Ég tel að því miður séu vísbendingar um að ekki sé hægt að gera hvort tveggja.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir í dag að ofan á þær framkvæmdir sem gert er ráð fyrir í þessu frv. bætast þær framkvæmdir sem munu leiða af stækkun Norðuráls. Það liggur líka fyrir að spennutími á þessu kjörtímabili mun a.m.k. ná fram til 2007. Þegar menn bæta síðan við þeim gífurlegu framkvæmdum sem fylgja því ef það verður stækkað inni í Hvalfirði, í Norðuráli, og velta líka fyrir sér hvaða framkvæmdir verða á biðlistanum, uppsöfnuð framkvæmdaþörf á þessum tíma, er nú býsna óvarlegt að lofa því að lækka skatta með þeim hætti sem menn hafa verið að gera hér. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim leik að herma það upp á menn, eins og gert hefur verið hér í dag. Ég tel að þrátt fyrir loforðin öll sé það loforðið mest um vert að haga sér skynsamlega við stjórn landsins. Mér finnst að hér hafi menn verið að skjóta sig í fæturna í þessari umræðu.

Ég tek eftir því t.d. að í þjóðhagsáætluninni stendur, með leyfi hæstv. forseta, á einum stað:

,,Samræmd stjórn peningamála og opinberra fjármála er nauðsynleg til þess að sem best takist til í atvinnulífinu. Þegar fyrirboðar eru um samdrátt í hagkerfinu eða jafnvel samdráttur hafinn er að jafnaði hyggilegt að slaka á aðhaldi í peningastjórn og auka eftirspurn af hálfu hins opinbera, t.d. með því að lækka skatta og/eða flýta ákveðnum hagkvæmum framkvæmdum.``

Er einhver samdráttur fram undan?

Síðan stendur hér áfram, með leyfi forseta:

,,Þegar fyrir liggur að spenna sé að myndast í hagkerfinu er að jafnaði vænlegast að fara gagnstæða leið.`` --- Sem sagt, ekki að lækka skatta.

Hér hafa einhverjir aðrir skrifað textann en þeir sem hafa talað fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í dag. Auðvitað er þetta svona. Og ég segi að það er ekki skynsamlegt af mönnum að ganga hér upp með svardaga um að standa við bæði markmiðin því að það er ekki víst að hægt sé að standa við þau bæði. Menn verða kannski að fórna öðru þeirra. Og verra væri það ef menn fórnuðu markmiðinu um að sýna ábyrga fjármálastjórn í þessu landi.

Hæstv. forseti. Ég tek eftir því að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að bæta neinum peningum í til byggðamála. Það þýðir að það er verulegur samdráttur í fjármunum til byggðamála fram undan á árinu 2004 frá því sem var á árinu 2003. 700 millj. kr. var bætt við til byggðamála á síðasta ári. Svo er í þessu frv. gert ráð fyrir að hér sé um að ræða svipaða upphæð og á árinu áður, þ.e. tæpar 600 millj. kr.

Þetta hlýtur að verða áhyggjuefni einhverra á þessu landi því að það er ekki eins og það standi til að byggja Kárahnjúkavirkjun nema á Austurlandi. Það er áreiðanlegt að ruðningsáhrif þeirrar framkvæmdar munu koma fram einhvers staðar annars staðar í dreifðum byggðum landsins. Full ástæða er til að hafa það í huga. Það stendur hvergi í þessu frv. að menn hafi velt fyrir sér að það þurfi að taka á einhvers staðar annars staðar á þessu landi til þess að vinna gegn þeim áhrifum sem hljóta að koma fram.

Vegna þess að ræðutími minn er stuttur langar mig til að beina umræðunni að því sem ég tel að sé jákvætt að hluta til og það er að hér stendur þó a.m.k. að það eigi að setja málefni aldraðra í forgang. Hér er gert ráð fyrir auknum fjármunum til málefna aldraðra. En málefni aldraðra og málefni sveitarfélaganna eru æðimikið samgróin og málefni aldraðra eru eitthvert mesta áhyggjuefni í sveitarfélögum allt í kringum landið um þessar mundir. Stefnan sem hefur verið rekin fram að þessu með dvalarheimilum aldraðra --- hið opinbera hefur komið til móts við sveitarfélögin með þeim hætti að það hefur ekki verið hægt að reka hjúkrunarheimili vegna þess að þessi heimili hafa í raun og veru verið að breytast í hjúkrunarheimili á undanförnum árum. Og mismunurinn á því að reka þessi dvalarheimili aldraðra eftir því hvort þau eru talin vera hjúkrunarheimili eða eru kannski hjúkrunarheimili en fá framlög eins og þau séu dvalarheimili aldraðra er æðimikill. Þetta er vandi sem menn þurfa að horfa framan í. Það er í raun og veru ekkert minna en stefnubreyting sem menn þurfa að fara í gegnum því að dvalarheimili aldraðra munu almennt vera að breytast í hjúkrunarheimili og úrræði af því tagi sem menn ætluðu að hafa á þessum stöðum eru þá miklu færri og verða það í framtíðinni. En ríkisvaldið hefur með einhvers konar handavinnu ákveðið hverjir eigi nú að fá framlög sem svara til þjónustunnar. Og það er ekki nærri alls staðar að menn fái framlög eins og um sé að ræða hjúkrunarheimili sem þó sannarlega er hægt að segja að sé. Ég hvet til þess að menn fari yfir þetta mál í heild og geri það í góðu samráði við sveitarfélögin þannig að stefnubreytingin geti gengið yfir sem allra fyrst. Þessi vandi er mjög erfiður víða og á þessu þarf auðvitað að taka.

Margt væri gaman að ræða hér en tíminn er allt of stuttur til þess. Það er mikið umhugsunarefni sem hefur verið rætt hér oft í dag, þessi hátekjuskattur. Ég hef hreinlega áhuga á því að vita það ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa það. Í stefnuræðu hæstv. forsrh. sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fram hefur komið að ég og fjármálaráðherrann litum svo á að hátekjuskattur væri með lögum sjálffallinn niður um næstu áramót. Niðurstaða stjórnarflokkanna varð engu að síður sú að framlengja skattinn.`` --- Þetta sagði hæstv. ráðherra. Og mér finnst einhvern veginn að það þurfi að útskýra þetta svolítið betur. Hæstvirtir ráðherrar lofuðu því í kosningabaráttunni að þessi skattur skyldi allur falla niður, koma svo með einhverja ámátlega útskýringu um það að þeir hafi staðið í þeirri meiningu að hann ætti að falla niður. Var þetta ekki einhver stefna sem var lýst yfir, einhver loforð í kosningunum? Var ekki verið að segja frá því?

Sá skattur sem þarna er á ferðinni er upp á 80 millj. En það er verið að hækka aðra skatta, eins og hefur verið farið yfir í dag, verulega mikið, og heildarskattbyrðin á almenning í landinu eykst um umtalsverða fjármuni í þessu fjárlagafrv. ef ekki verður út af því breytt.