Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:05:29 (103)

2003-10-03 16:05:29# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn hreyfir hér vissulega mikilvægu máli þar sem ljóst er að ýmis óleyst vandamál eru uppi varðandi þessa stofnun, Ríkisútvarpið. Það er líka rétt sem hann benti á að um fyrirkomulag þessa rekstrar hafa verið skiptar skoðanir milli stjórnmálaflokkanna innan og utan ríkisstjórnar. Þó hygg ég að þeir séu nú ekki margir sem vilja koma þessari starfsemi fyrir kattarnef, ef nokkrir.

Mörg vandamál eru samtímis þarna á ferðinni. Eitt af þeim er að sjálfsögðu það hvernig tekjuöflunarmöguleikar Ríkisútvarpsins eru. Mín skoðun hefur verið sú, og margra fleiri, að núverandi kerfi afnotagjalda sé úrelt, það eigi að leggja afnotagjöldin niður, spara stofnuninni þann kostnað sem hún hefur af innheimtu gjaldanna, sem nemur tugum milljóna á ári hverju, og færa þetta alfarið yfir á fjárlög og þá þarf auðvitað að skaffa tekjur inn í ríkissjóð á móti því.

Annað vandamál þarna eru lífeyrisskuldbindingarnar sem hv. þm. nefndi. Þær eru að vísu alveg rétt útreiknaðar og rétt framreiddar í þeim skilningi að þetta er sú skuldbinding sem þessi stofnun hefur komið sér í áranna rás. En hún er sjálfsagt einn liðurinn í því að reyna að finna varanlega lausn í þessu máli.

Annað sem hangir þar á spýtunni er svo sambandið milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar sem er að mínum dómi líka að mörgu leyti úrelt eins og mál hafa þróast hér í seinni tíð. Þetta mál er til athugunar á vettvangi menntmrn. Mér er kunnugt um að núv. ráðherra hefur fullan vilja til þess að reyna að mjaka þessu máli áleiðis til ásættanlegrar lausnar og ég vona að það muni takast.