Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:30:04 (107)

2003-10-03 16:30:04# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Umræðan í dag hefur kannski að mestu leyti sýnt mér að þær athugasemdir sem ég hafði hér fram að færa í fyrri ræðu minni um aðdragandann og fjárlagagerðina almennt ættu við nokkur rök að styðjast. Hér hefur verið nokkuð almennt fjallað um helstu stærðir en þau fjölmörgu brýnu mál sem fram koma í fjárlagafrv. og lúta að einstökum stofnunum, málum og þjóðfélagshópum hafa kannski tiltölulega lítið komið til umræðu. Ég held að að mörgu leyti fari betur á því að þessi almenna umræða færi fram á vorþingi þegar ríkisstjórn legði til ramma fyrir komandi ár en í upphafi haustþings gæfist mönnum kostur á að ræða hin einstöku efnisatriði fjárlagafrv. og þá í byrjun þings, því ég hygg að þegar sú umræða færi fram í lok nóvember yrði fjárlagafrv. einfaldlega það langt komið að þær athugasemdir og ábendingar sem kunna að koma fram í umræðunni kæmu í raun of seint fram. Það er mikilvægt fyrir land og þjóð að sú reynsla og þekking sem býr í þeim 63 þjóðkjörnu þingmönnum sem hér sitja nýtist við fjárlagagerðina því til þess voru þeir hingað kjörnir, úr hvaða flokki svo sem þeir eru. Þeir hafa reynslu og þekkingu á högum ólíkra þjóðfélagshópa og á þörfum ólíkra landshluta, stofnana o.s.frv. Það er mikilvægt að athugasemdir þeirra og ábendingar komi sem fyrst fram í þessu ferli þannig að það séu sem mestar líkur á því að þær ábendingar geti orðið að gagni.

Mér finnst líka mikilvægt að þriggja ára áætlun um helstu hagstærðir sé lögð fyrir þingið og fram fari um hana sérstök umræða og þar séu allar upplýsingar á borðinu. Ég undrast satt að segja að enn skuli hæstv. fjmrh. ekki hafa sinnt ósk minni frá því fyrr í dag að upplýsa um hvaða forsendur um tekjuskatt í krónum talið eru í tekjuspánni fyrir 2007 í þeim gögnum sem hann hefur verið að kynna. Sú tala er til, sú tala er í bakgögnum fjmrn. Við sjáum af tölunum sem liggja fyrir um frumvarpið 2004 að tekjuskattur er í ár áætlaður 62 milljarður, og hann er áætlaður á næsta ári 67 milljarðar. Ég held að það sé mikilvægt fyrir umræðuna vegna þess að í henni skiptir miklu máli hvort 20 milljarða skattalækkanir verða árið 2007 eða ekki, að hæstv. fjmrh. upplýsi hversu miklum tekjum hann gerir ráð fyrir af tekjuskatti á þessu margfræga ári 2007.

Ég held að miklu máli skipti, hæstv. fjmrh., að þingmenn hafi aðgang að upplýsingum og vil raunar nefna að ég hef í fjárln. komið á framfæri beiðni um að fá aðgang að fjárlagabeiðnum tveggja stofnana í Reykjavík, sem er mitt kjördæmi, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík annars vegar og lögreglunnar í Reykjavík hins vegar, og vænti þess að fá þær upplýsingar því ég tel að mikilvægt sé fyrir mig sem þingmann kjördæmisins að vita hvað það er sem fagfólk og opinberir embættismenn á þessum tveimur málasviðum telja að þeir þurfi til að veita íbúum í mínu kjördæmi viðunandi þjónustu.

Ég sé hins vegar af sögunni --- af því að ég er nýliði hér þá hef ég þurft að kynna mér hana nokkuð --- að einn þingmanna, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur áður leitað eftir svipuðum upplýsingum, þá að vísu meðan þing var ekki að störfum, og þurfti að sækja það sem almennur borgari fyrir upplýsinganefnd. Ég vil lýsa því yfir, virðulegur forseti, í þessum stól að ég vona sannast sagna að ég þurfi ekki að fara þá leið til að afla jafnsjálfsagðra upplýsinga og fjárlagabeiðna tiltekinna stofnana í kjördæmi mínu. Ég vona að virðing Alþingis og fjárln. sé með þeim hætti að þingmenn eigi greiðan aðgang að þeim gögnum sem liggja fjárlagafrv. til grundvallar, og þætti það vera háðung fyrir þingið og nefndina ef slíkar upplýsingar þyrfti að sækja sem almennur borgari á grundvelli almennra laga.

Það hefur verið nokkuð lærdómsríkur tími að vera í fjárln. á undanförnum dögum. Á fund nefndarinnar hafa sveitarstjórnir hringinn í kringum landið komið og gert grein fyrir helstu áhyggjuefnum sínum og hugðarefnum sömuleiðis. Hv. þm. Jón Gunnarsson vakti ágætlega athygli á því sem einkennt hefur þær samræður sem ég held að sé mikilvægt að komi fram í þinginu. Það eru annars vegar breytingarnar sem gerðar voru á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem hafa verið að leika mörg sveitarfélaganna illa og það hlýtur að vera mikilvægt að menn skoði hvaða áhrif breytingarnar höfðu og hvort þau áhrif hafi verið þau sem ætlast var til. Hins vegar er það vandinn í öldrunarþjónustunni. Það er einfaldlega sama vandamálið hringinn í kringum landið, hvort sem það er Reykjavík, höfuðborgarsvæðið, Dalabyggð, Ísafjörður, Skagaströnd, Blönduós, Akureyri, Héraðið, Mýrdalur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, og þannig gætum við haldið áfram, að daggjöldin sem heilbrrn. greiðir vegna aldraðra á dvalarheimilin og vegna hjúkrunar nægja ekki fyrir rekstri. Og þó að sýnt sé að fólk sem vistað er á dvalarheimilum svokölluðum sé í mikilli hjúkrunarþörf og kostnaður við umönnun þess sé miklu meiri en daggjöldunum nemur þá fá sveitarfélögin enga leiðréttingu þessara mála.

Þessi mál eru augljóslega, hæstv. fjmrh., í miklum ólestri. Það er algerlega deginum ljósara að ekki eru skýrar leikreglur um framlögin og um það hvernig þjónustuþörf er metin. Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. skuli hafa hreyft þeim hugmyndum að flytja öldrunarþjónustuna og heilsugæsluna til sveitarfélaganna því að ég hygg að þau stæðu þó sýnu betur en þetta af þeim málaflokkum.

Ég vil síðan almennt um frv., fyrir utan þá þætti sem lutu að skattahækkunum og svikum á kosningaloforðum og ég fór yfir í fyrri ræðu minni, lýsa áhyggjum af afleiðingum þeirrar stöðugu viðleitni að miða tekjutengingar, að miða einstaka bótaflokka og hækkanir þeirra sífellt við þróun neysluverðs en ekki þróun kaupmáttar. Ég vil sérstaklega í því sambandi benda á atvinnuleysisbætur eins og þær standa núna. Ég hygg að atvinnuleysisbætur séu mál sem þurfi sérstaklega að taka á. Þeim hefur verið haldið niðri með þeim hætti að þær nema nú 77 þúsund krónum, hygg ég og fer þó með eftir minni, og ég held að við hljótum öll í þessum sal að geta verið á einu máli um að það dugar engum manni til framfærslu. Það er í raun og veru fyrir neðan öll velsæmismörk og það að við ætlum síðan þess utan að fara að klípa þrjá daga af því og ætlum ekki að hækka atvinnuleysisbæturnar til samræmis við hækkun launavísitölu á næsta ári heldur aðeins neysluverðs, er sannarlega áhyggjuefni. Vegna þess að ef við ætlum með þeim hætti að hegða okkur gagnvart þeim sem verst eru settir í samfélaginu þá hefur það alvarlegar afleiðingar til lengri tíma. Menn geta komist upp með að loka einum fjárlögum með því að klípa svona smáprósent af bótaþegum. Menn geta kannski lokað tvennum fjárlögum með því að klípa af þeim sem minnst mega sín eitthvað hér og þar. En þegar menn hafa gert það ár eftir ár eftir ár þá hafa þeir einfaldlega skapað stórum hópum fólks, og í þessu tilfelli atvinnulausum, skilyrði sem ekki eru mannsæmandi. Ég fullyrði það og lýsi því sem skoðun minni að atvinnuleysisbætur eins og þær eru á Íslandi í dag eru ekki boðlegar og ekki sæmandi þessu auðuga hagsældarríki sem stjórnarliðið hefur hér lýst svo fjálglega. Staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er áhyggjuefni og þau framlög sem við þurfum að fá þar inn.

Við hljótum líka í umræðunni að spyrja eftir ýmsum öðrum þáttum í ríkisrekstrinum, m.a. hvaða augum hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. líta það að Fæðingarorlofssjóð virðist mér eiga að reka á næsta ári með tæplega milljarðs halla. Ég spyr hvort það sé viðunandi áætlun og hvort við svo búið geti staðið að óbreyttu og hvaða aðgerða menn þá hyggjast grípa til.