Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:41:31 (108)

2003-10-03 16:41:31# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að koma víða við á tíu mínútum en í fyrri ræðu minni byrjaði ég á að hrósa ríkisstjórninni fyrir það sem vel hefur verið gert, vék að öryrkjum, ungum öryrkjum sem fá hækkun á greiðslum sínum og greiðslum inn í lífeyrissjóðakerfið, þar tel ég að sýnd hafi verið fyrirhyggja. Eins finnst mér það til góðs að hafa þennan vegvísi inn í framtíðina varðandi stefnumarkmið, pólitísk og efnahagsleg.

Ég gagnrýndi ríkisstjórnina mjög ákveðið fyrir framkomu hennar gagnvart atvinnulausum og furða mig sannast sagna á því að menn skuli láta sér detta í hug að skerða kjör þeirra. Menn ætla að hafa af atvinnulausu fólki rúmlega tíu þúsund krónur í upphafi atvinnuleysistímans, þ.e. að greiða ekki atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá daga í atvinnuleysi en þá ættu að renna til hins atvinnulausa 10.722 kr. Ég hvet ríkisstjórnina mjög eindregið til að taka þessar tillögur til endurskoðunar.

Síðan vék ég að því að það væri vafasamur háttur að hverfa aftur til meðaltalslausnanna og -nálgunar, nokkuð sem tíðkaðist hér fyrr á tíð, flatur niðurskurður, ég veit að margir muna eftir því. En þessi aðferð er að dúkka upp að nýju í því formi að ætlast er til að stjórnsýslan almennt dragi saman um eitt prósent.

Í ræðu hæstv. ráðherra er einnig talsvert um meðaltalsframsetningu að ræða. Hann segir að reynt verði að koma í veg fyrir að raunvöxtur, raunkostnaður í samfélagsþjónustunni aukist um meira en 2%.

Ef við nú hverfum aftur í tímann um 20 ár og berum raunkostnaðinn saman við samneysluna við það sem tíðkast nú þá er þar ekki saman að jafna hve miklu, miklu meiri hann er núna, enda þjóðin fjölmennari og umfang efnahagsstarfseminnar miklu meira. Það er það sem raunverulega skiptir máli. Hvert er hlutfallið af samfélagsþjónustunni þegar litið er til vergrar landsframleiðslu? Það er hér sem við mælum ásetning ríkisstjórnarinnar um niðurskurð. Enda segir það sig sjálft að skattalækkanir, umfangsmiklar skattalækkanir upp á 20 milljarða kr. kalla að sjálfsögðu á niðurskurð.

[16:45]

Til þess að komast út úr þessum meðaltölum þurfum við að fara inn í einstaka málaflokka. Ég staðnæmdist við sjúkratryggingar sem á að skerða um 740 milljónir, sem er lyfjakostnaður, sérfræðiaðstoð og hjálpartæki fyrir sjúka og fatlaða. Ég held að hér eigi að forðast alhæfingarumræðu. Við þurfum að sjá hvað býr að baki þessum tölum. Það sem skiptir máli er að lyfjakostnaður hjá sjúku fólki verði ekki aukinn, það er það sem máli skiptir. En að sjálfsögðu viljum við hafa opinn huga gagnvart öllum kerfisbreytingum, nýrri hugsun, nýjum leiðum til þess að ráðstafa fjármunum í velferðarþjónustunni. Að sjálfsögðu viljum við gera það.

Um það snýst pólitíkin. Hvaða leiðir við ætlum að fara, hvaða ráðum við ætlum að beita. Þá þurfa menn að vita og þekkja vilja sinn. Það gerir ríkisstjórnin ekki að öllu leyti t.d. í húsnæðismálum. Á síðasta kjörtímabili stóðu harðvítugar deilur um það með hvaða hætti ætti að fjármagna eða styðja við bakið á aðilum sem sjá skjólstæðingum sínum fyrir félagslegu leiguhúsnæði. Ég nefni búsetu stúdenta eða námsmannasamtök, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg o.s.frv. Um þetta var deilt í ríkisstjórninni. Á að fara vaxtaleiðina? Á að halda vaxtakostnaði niðri með greiðslum úr ríkissjóði? Eða á að fara stofnstyrkjaleiðina? Framsfl. og Sjálfstfl. gátu ekki komið sér saman um hvaða leið ætti að fara, hvað þetta snertir. Í fjárlagafrumvarpinu á bls. 368 kemur fram að ekki er uppgert hvor leiðin verði farin, greiðslur á vaxtamun lána til leiguíbúða eða stofnstyrkjaleiðin. Þetta er óuppgert og fróðlegt að heyra hvaða hugmyndir eru uppi, hvað þetta snertir.

Ég staðnæmdist sérstaklega við eitt svið sem lýtur að rannsóknum og fæ ekki betur séð en að þvert á loforð sem gefin voru hér í þessum sal í fyrra, eða fyrr á þessu ári öllu heldur, um aukið framlag til vísindarannsókna, sé að draga úr framlögum til grunnrannsókna. Það segir að vísu í fjárlagafrumvarpinu að rannsóknarfé sé aukið um 370 milljónir. Við getum leitað skýringanna í þremur ráðuneytum; menntmrn., sjútvrn. og iðnrn. Það er alveg rétt að í iðnrn. er kominn til sögunnar nýr sjóður, tækniþróunarsjóður, en þangað eiga að renna 200 milljónir. Sá sjóður er hugsaður til atvinnuuppbyggingar og er ekkert nema gott um það að segja. Á bls. 437 segir, með leyfi forseta:

,,Áætlað er að framlög til sjóðsins muni vaxa á næstu fjórum árum og verði orðinn 500 millj. kr. á árinu 2007.``

Þarna á að auka verulega og bæta verulega við. Á fyrsta starfsárinu eru sjóðnum ætlaðar 200 milljónir. Þarna er sem sagt vaxtarsprotinn.

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Sjóðnum er ætlað að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.``

Ekkert nema gott um það að segja. En það eru grunnrannsóknirnar sem ég staðnæmist við. Áður höfðum við vísindasjóð og tæknisjóð. Þeir hafa verið sameinaðir og fengu á fjárlögum 2003 samanlagt 412 millj. kr. Á næsta fjárlagaári er gert ráð fyrir 415 milljónum í þennan sjóð. Það er 0,7% breyting á milli ára. Það er langt undir verðlagsþróun. Þarna er með öðrum orðum samdráttur. Það er því mjög vafasamt að fullyrðing hæstv. fjmrh. standist, að ríkisstjórnin sé að auka framlag til rannsókna. Alla vega á það ekki við um grunnrannsóknir. Við skulum líka hyggja að því þegar menn eru að monta sig af því að við stöndum í fremstu röð þjóða varðandi framlag til vísindarannsókna, þá erum við með inni í þeirri súpu allt það sem gerist hér á almennum markaði, þar vísa ég t.d. í Íslenska erfðagreiningu. Þar voru losaðir fimm eða sex milljarðar á sínum tíma, bandarískir áhættufjárfestar voru keyptir út, íslensku bankarnir gerðu það og þessir peningar settir inn í þennan geira. Þetta skiptir máli þegar kemur að grunnrannsóknum, hvað ríkisstjórnin er að gera. Hún er að skerða framlag til grunnrannsókna, til vísindarannsókna. Hún er að skerða framlag til þessa málaflokks. Ég fæ ekki betur séð af þessu frv. Það finnst mér vera ámælisvert og mjög vafasamt.

Hér er tíminn aftur að hlaupa frá mér. Varðandi útgjöldin í heilbrigðismálunum þurfum við að líta á pyngju þess sem borgar, sem er veikur og borgar. Staðreyndin er sú að veruleg aukning hefur átt sér stað á síðasta rúma áratug. Það var gerð úttekt á þessu af hálfu BSRB fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þar kemur í ljós að einstaklingur, t.d. þunglyndissjúklingur, greiddi árið 1990 tæpar 20 þús. kr. vegna síns sjúkdóms, en árið 2001 borgaði hann 53 þúsund, þetta er fast verðlag. Þetta eru tölurnar sem skipta máli. Við þurfum að horfa á einstaklinginn sem á í hlut og týna okkur ekki í meðaltölum.

Ég verð að eiga síðar orðastað við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem ætlar að skera mikið niður í heilbrigðisþjónustunni og spara mikla peninga, væntanlega eins og Eamonn Butler sem kom hér á vegum Verslunarráðsins ekki alls fyrir löngu. Hann vildi spara 20--40% í heilbrigðisþjónustunni, þjónustu þar sem launaútgjöld eru 70%. Hann ætlaði líka að hækka launin. Þetta er maðurinn með kanínurnar. Það er í fótspor hans sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og hugsanlega einnig fjármálaráðherra ætla að feta. Ég vona að við eigum eftir að ræða það betur og nánar hér við umræðuna.