Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:02:20 (110)

2003-10-03 17:02:20# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. n. telur að aldrei hafi ein stjórn ætlað að lækka skatta eins mikið og þessi. Ég skal ekki segja. Ég minnist þess ekki hvaða yfirlýsingar menn hafa haft fyrir eða eftir kosningar um skattalækkanir. En það má auðvitað segja að ein stjórn undir forustu Sjálfstfl. hafi lækkað skatta meira en þessi hefur gert. Það er ríkisstjórn, blessuð sé minning hennar, Þorsteins Pálssonar frá 1987. Hún efndi kosningaloforð sín og það má hrósa henni fyrir það.

Þessi virðist fara öðruvísi að en sú stjórn. Hún ætlar ekki að efna kosningaloforðin heldur að láta þau vera fyrirheit, a.m.k. á fyrsta ári. Hún hefur þvert á móti, eins og sýnt hefur verið fram á af hálfu stjórnarandstæðinga, hækkað skatta á fyrsta árinu. Hún hefur hækkað bensín- og dísilskatta um milljarð og við bætist frádráttur vegna vaxtabóta um 600 millj. kr. Það gerir 1.600 millj. kr. samtals á næsta ári.

Á móti kemur dýrleg skattalækkun sem nemur u.þ.b. 80 millj. kr. og er hátekjuskatturinn frægi. Þar fer ríkisstjórnin að sjálfsögðu verri leiðina af tveimur sem til boða stóðu. Hún lækkar prósentuna en hækkar ekki viðmiðunarmörkin sem hefði verið eðlilegra. Það sem við getum flest verið sammála um varðandi hátekjuskattinn er að hann er ekki raunverulegur hátekjuskattur heldur skattur á hærri meðaltekjur. Þá hefði verið nær að hækka mörkin.

En svona er þetta, 1.600 millj. kr. hér og 80 millj. kr. þar og svo koma loforðin árið 2007.