Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:04:17 (111)

2003-10-03 17:04:17# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað svo að ef stjórnarandstaðan trúir ekki því sem fyrir hana er lagt þá nær málið ekki lengra. Það er ekkert flóknara en það. Menn geta lagt út frá því með bensíngjaldið að það sé hækkun en menn vita, ef þeir skoða það sér það hver sanngjarn maður, að menn hafa sleppt því að hækka það, eins og gera hefði mátt ráð fyrir, á undanförnum árum. Það er nokkuð sem hæstv. fjmrh. hefur farið ágætlega í gegnum. Ef menn vilja ekki hlusta á slíkt þá nær það auðvitað ekki lengra. Ef menn telja að það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og hefur verið kynnt af hálfu hæstv. ráðherra, fjmrh. og forsrh. og fleiri hafa verið nefndir til sögunnar, þá nær það auðvitað ekki lengra.

Upp úr stendur auðvitað að þegar menn fara í næstu kosningar þá bera menn saman orð og efndir, það segir sig sjálft. En hér tala menn eins og kosningarnar séu á morgun og menn hafi þurft að efna allt það sem í stjórnarsáttmálanum stendur. Ég veit ekki til þess að nokkur stjórn hafi gert það á sínu fyrsta ári. Ég veit ekki til þess.

Það kemur hins vegar skýrt fram þegar ágætir þingmenn Samfylkingarinnar tala og liggur alveg fyrir að vinstri menn hafa aldrei lækkað skatta og munu aldrei lækka skatta. Þrátt fyrir að hv. þm. Helgi Hjörvar tali um, og ég fagna því, að hann sé ekki hrifinn af þeim skatti sem er kallaður hátekjuskattur --- við eigum bandamann í honum --- þá koma allir hinir, hv. þm. Mörður Árnason og Einar Már Sigurðarson og sjá því allt til foráttu að lækka þann skatt.